þriðjudagur, maí 23, 2006

23. maí 2006 - Á villigötum

Ég þurfti að keyra góða vinkonu mína og dætur hennar suður á Miðnesheiðarflugvöll á mánudaginn svo þær kæmust í flug til útlanda. Þessi ágæta vinkona mín er óstundvís með afbrigðum og því lögðum við ekki af stað fyrr en klukkan var að verða tvö þrátt fyrir ætlun hennar að leggja af stað klukkan eitt. Það lá á að komast á flugvöllinn í tíma, því hún ætlaði sér að versla einhver lifandis býsn á flugvellinum áður en vélin færi í loftið.

Að sjálfsögðu ók ég í loftköstum Keflavíkurveginn og þakkaði fyrir að sleppa í gegnum Kópavoginn, Garðabæ og Hafnarfjörð án mikilla tafa og síðan á fullri ferð á leyfilegum hámarkshraða. Allt gekk vel þar til komið var að Fitjum í Njarðvík, en þar hafði orðið umferðarslys. Tveir stórir fólksbílar með samtals ellefu manns höfðu skollið saman og níu manns á leið á slysadeild með skrámur. Við slysstaðinn var lögreglan og stjórnaði umferðinni. Í stað þess að hægja aðeins á umferðinni frá flugvellinum og lofa umferðinni til flugvallarins að halda beint áfram Reykjanesbrautina framhjá slysstaðnum, þar sem nóg var plássið, vísaði lögreglan allri umferðinni frá Reykjavík inn að Fitjum og þá leiðina inn til Keflavíkur.

Ég fylgdi á eftir röð bíla þar sem bílstjórarnir virtust ekki þekkja sérstaklega vel til Njarðvíkur/Reykjanesbæjar. Ekki ég heldur. Í leit að vegi inn á Reykjanesbrautina lenti öll bílaröðin sem ég var í, inni í íbúðahverfi og svo inn í blindgötu þar sem snúið var við. Afram var haldið en nú mun nær sjálfri Keflavík og eftir fleiri tilraunir, fannst loksins illa merkt leið upp á Reykjanesbrautina og ég komst alla leið á flugvöllinn þar sem vinkona mín og dætur hennar bókuðu sig inn en ég hélt aftur til Reykjavíkur.

Ég fór að velta því fyrir mér hvort Keflvíkingar hefðu ákveðið að beita hinni gömlu aðferð Kópavogsbúa til að fjölga íbúum bæjarins. Hafa auðvelda leið inn í bæinn, en nánast vonlaust að rata í burtu aftur!


0 ummæli:Skrifa ummæli