föstudagur, maí 12, 2006

13. maí 2006 - Danskir sérfræðingar

Ég heyrði sagt frá dönsku sérfræðiáliti á framtíðarstaðsetningu Landsspítalans á föstudaginn. Þar var því haldið fram að mælst hefði verið til að byggt yrði upp við Borgarspítalann í Fossvogi en ekki gamla Landsspítalann. Útvarpið spurði hinn nýja heilbrigðisráðherra um þetta álit og svarið var stutt:
“Það er búið að ákveða að Landsspítalinn verði við Hringbraut og því verður ekki breytt.”

Ég er sjaldan sammála læknum, en í þetta sinn er ég sammála þeim gegn ríkisvaldinu. Staðsetningin við Hringbraut er fáránleg og mun skapa heilmikil vandræði í framtíðinni, ekki síst fyrir þá sök að miðja höfuðborgarsvæðisins er sífellt að færast austar og þar með verður gamli miðbærinn eins og úthverfi langt frá miðjunni.

Hver ætli hafi pantað álit frá þessum dönsku sérfræðingum sem fór beint í ruslafötuna af því að vitlaus ákvörðun hafði verið tekin? Svo getur verið hættulegt að taka mikið mark á dönskum sérfræðingum. Um daginn spáðu danskir sérfræðingar falli krónunnar og hún féll með það sama.

Þá er það ekki til að bæta úr ástandinu að stærsti hlutinn af hugsanlegu byggingarlandi gamla miðbæjarins skuli notaður undir gamlan herflugvöll sem aftur leiðir af sér að þjónustukjarnarnir verða einnig að flytja austur og suður á bóginn. Þannig er eitt framboðið til borgarstjórnar með tvö meginatriði í stefnu sinni, að viðhalda Vatnsmýrarflugvelli og Hringbrautarspítalanum. Fólkið mun svo búa í bæjarfélögunum í kring. Svei mér þá ef þeir vilja ekki líka fleyta Árbæjarsafni út í Viðey til að skapa fleiri lóðir í úthverfunum.

Ég hefi ekki mátt vera að því að skrifa almennilegt blogg síðustu dagana og mun ekki hafa tíma til þess næstu dagana heldur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli