sunnudagur, maí 07, 2006

7. maí 2006 - Labbitúr


Ég fékk mér labbitúr á laugardaginn um Stór-Garðabæ ásamt göngufélaganum. Eins og allir vita sem komnir eru til vits og ára, þá eru Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur einungis hjáleigur frá hinum eina sanna Garðahreppi og spurningin hvort ekki sé tímabært að leggja þessa útkjálka aftur undir Garðahreppinn. Það verður stór dagur þegar hreppamörk Stór-Kjalarness munu liggja að Stór-Garðahreppi til suðurs

Það var hafist handa við gömlu sundhöllina í Hafnarfirði og rölt út eftir Garðaveginum í átt að Bessastöðum. Að sjálfsögðu var komið við í kirkjugarði þeirra Garðbæinga við Garðakirkju og síðan rölt áfram út eftir Álftanesinu í ágætu veðri að Bessastöðum. Hvergi sá ég Ólaf og var því ekkert kaffi að hafa, en við mættum mótorhjólagarpi sem var grunsamlega líkur Dorrit.

Í Bessastaðakirkjugarði var staðnæmst við leiði heiðurshjónanna Eyjólfs Þorbjörnssonar (Þorbjarnarsonar) útvegsbónda, bróður langömmu minnar og konu hans Guðnýjar Þorsteinsdóttur af Húsafellsætt. Ekki fann ég fleiri leiði ættingja sem ég kannaðist við, enda ættingjar mínir löngum taldir lítt gefnir fyrir minnisvarða sér til handa. Fyrir bragðið voru leiðin þeirra ómerkt og nú löngu týnd.

Ekki tókst ætlunarverkið, að ganga allt Álftanesið, enda var gengið að aflokinni lóðahreinsun nágranna minna. Þá þurfti ég að gæta klukkunnar því næturvaktin beið mín í Reykjavík.

Eftir þriggja klukkutíma gönguferð í gær, er viðbúið að það verði harðsperrur í dag.

-----oOo-----

Nú verða hetjurnar okkar í Halifaxhreppi að gæta sín. Þær spiluðu gegn Gránufjelaginu í gær um sæti í langneðstu deild og léku fyrri hálfleik af mikilli leikgleði og gleymdu sér í leiknum. Er blásið var til hlés þremur glæsilegum mörkum síðar, sá þjálfarinn ástæðu til að lesa yfir þeim og benda þeim á að sætið í kvenfélagsdeildinni væri í stórhættu. Fóru hetjurnar aftur út á völlinn með skammirnar á bakinu og gerðu eftir það allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa þeim grálúsugu að skora mörk. Ekki tókst það nægilega vel, en leiknum lauk með þremur mörkum okkar kvenna gegn tveimur mörkum Gránufjelagsins, en þar sem Svarti-Pétur var ekki viðlátinn, fékk Svarti-Óli (sjá mynd) þann vafasama heiður að skora þau bæði.

Loks er sjálfsagt að bjóða Ryðguðu demantana og Oxford velkomin til leiks í kvenfélagsdeildinni úr langneðstu deild á hausti komanda.


0 ummæli:







Skrifa ummæli