fimmtudagur, maí 04, 2006

4. maí 2006 - Landamæraeftirlit

Ekkert skil ég í þessum mönnum að gera veður úr því, að leitað var á Kastrup á ferðamönnum sem komu þangað frá Íslandi og Bandaríkjunum. Það er raunar furðulegt að þetta hafi ekki verið gert miklu fyrr. Bandarískir landamæraverðir hafa hegðað sér með yfirgangi og frekju gagnvart Evrópubúum og hegða sér gagnvart öllum eins og um hryðjuverkamenn sé að ræða undir kjörorðinu: Margur heldur mig sig.

Það er því eðlilegt að svarað sé í sömu mynt af hálfu Evrópuríkja. Ef einhver sker sig úr hópnum, ber að setja þann aðila í hóp með þeim sem hylmt er yfir með. Íslendingar láta frekjuskapinn yfir sig ganga í Bandaríkjunum, en svara með því að bjóða dollarana velkomna í formi hernaðaraðstoðar og þora ekki að segja múkk. Með því að beita ekki sömu reglum við komu Bandaríkjamanna til Íslands eins og önnur Evrópuríki gera, verður að framkvæma reglurnar á næsta viðkomustað á Schengensvæðinu, í þetta sinn í Danmörku.

-----oOo-----

Á föstudag fara alþingismenn í vorfrí, væntanlega til að sinna sauðburði og búskap. Varla eru þeir að sinna kosningum því um er að ræða sveitastjórnarkosningar, en ekki alþingiskosningar. Vissulega eru nokkrir alþingismenn einnig í sveitastjórnum, en það er þá kominn tími til að þeir láti ekki valdagræðgina ráða yfir sér og gefi fleira fólki færi á að komast að.


0 ummæli:







Skrifa ummæli