þriðjudagur, maí 02, 2006

2. maí 2006 - Stéttasvik


Ég játa. Ég hefi syndgað og framið ófyrirgefanlegan glæp. Ég skrópaði í svonefndri kröfugöngu verkalýðshreyfingarinnar 1. maí. Það sem þó er grátlegast er að ég hafði enga ástæðu til að skrópa. Ég sat her heima og strauk á mér vömbina úttroðin af góðum mat í tilefni dagsins.

Þar sem ég sat yfir fréttunum í sjónvarpinu um kvöldið, sá ég fjölda ungs fólks í kröfugöngu og greinilegt að þetta var kröfuganga að þeirra sið. Óskaplega hógvær. Svo kom viðtal við Halldór Björnsson fyrrum formann Dagsbrúnar þar sem hann sat heima í stofu og var hæstánægður með árangur þann sem honum hafði tekist að ná í gegn áður en hann, Dagsbrún og Verkamannasambandið voru lögð niður.

Ég lét hugann reika aftur til áttunda áratugarins þar sem litlu göngurnar til höfuðs göngu og útifundi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna voru fjölmennari en gangan 1. maí 2006, þar á meðal eitt sinn er ég hélt ræðu af vörubílspalli á Hallærispaninu á fundi ákveðinna vinstrihópa. Þá var annar útifundur við Miðbæjarskólann og hinn þriðji var á vegum Fulltrúaráðsins á Lækjartorgi. Þá var gaman að vera róttæk og berjast gegn auðvaldi, hernum og Nató

Ég labbaði að sjónvarpinu og slökkti á því eftir að fréttunum lauk. Setti síðan disk í tækið og söngur farandverkamannsins hljómaði í eyrunum. Mér varð hugsað til farandverkamanna nútímans á vertíð upp við Kárahnjúka, á Reyðarfirði og í byggingarvinnu í Reykjavík. Kannski er baráttunni ekkert lokið þótt Halldór Björnsson hafi gefið það í skyn og ég hafi dundað mér við bréfaskriftir í stað þess að labba í kröfugöngu.

Á meðan íslensk verkalýðshreyfing hélt upp á ímyndaða sigra í stéttabáráttunni, taka íslenskir arðræningjar þátt í kappakstri milljarðamæringa víða um heim og leggja sjálfa sig og aðra vegfarendur í stórhættu. Vart verður það til að auka hróður þeirra meðal alþýðunnar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli