laugardagur, nóvember 11, 2006

11. nóvember 2006 – Íslendingabók


Það eru sennilega um fimm ár (fjögur ár leiðr.) frá því Íslendingabók var sett á netið, öflugur gagnagrunnur um ættir Íslendinga frá upphafi og til þessa dags. Í upphafi var ég full grunsemda og ótta gagnvart þessum nýja ættfræðigrunn sem þarna hafði skotist út á netið eftir að hafa verið til í pappírsformi um nokkurt skeið, en um leið uppfull tilhlökkunar að sjá hvaða möguleikar fælust í honum.

Það var eðlilegt að ég væri smeyk við þessa tilraun Friðriks Skúlasonar og Kára Stefánssonar til heildarútgáfu á ættum Íslendinga. Það var ótti í mörgum þess efnis að Íslendingabók gengi af ættfræðinni dauðri. Þarna hafði fjöldi fólks sem flest var komið yfir miðjan aldur, dundað sér í mörg ár við að grúska í ættum sínum og annarra með misjöfnum árangri, en nú áttu hópar háskólanema að hraðrita skráningu gagna úr kirkjubókum í sumarfríinu sínu, en aðrir að skrá inn í gagnagrunninn ættir sem þegar hefðu verið færðar í bækur og án þess að höfundar bókanna fengju neitt fyrir.

Afstaða mín til Íslendingabókar breyttist þó fljótlega eftir að hún kom á netið. Aðgangur að ættum annars fólks var takmarkaður, en þó ekki alveg lokaður. Það var hægt að rekja sig saman við hvaða Íslending sem var og ættir Íslendinga fyrir 1703 voru opnar öllum sem höfðu fengið aðgang að Íslendingabók. Starfsfólk Íslendingabókar gerði miklar kröfur um fagleg vinnubrögð og leiðrétti ekki innkomnar athugasemdir nema að vel athuguðu máli. Ég lenti nokkrum sinnum í að verða ósammála starfsfólkinu vegna einstakra atriða, en ávallt leystust málin að lokum á þann hátt að vel mátti við una.

Fyrsta árið sem Íslendingabók var á netinu, var aðsóknin framar björtustu vonum. Stundum voru þúsundir inni að grúska samtímis, svo að kerfið réði ekki við allan fjöldann. Síðar eftir að fólk hafði skoðað nægju sína og nýjabrumið farið, voru jafnan 100-200 manns inni samtímis að skoða ættir sínar. Þegar þessi orð eru rituð á föstudagskvöldi, eru 154 manns inni að skoða ættir sínar. Það ber að þakka Friðrik Skúlasyni og starfsfólki Íslendingabókar fyrir vel unnið verk með óskum um áframhald.

Það er full ástæða til að geta þessa hér, því heyrst hefur að senn verði Íslendingabók lokað. Íslensk erfðagreining sem hefur fjarmagnað útgáfuna, á í erfiðleikum og þarf að draga saman seglin. Sjálf tel ég eðlilegt og hvet Alþingi til að leggja fram laun minnst tveggja til þriggja starfsmanna til að halda áfram útgáfu Íslendingabókar í sem minnst breyttu formi, ásamt því að reka sjálfan gagnaþjóninn undir stjórn Friðriks Skúlasonar.

Muna að klikka á myndina til að njóta hennar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli