miðvikudagur, nóvember 15, 2006

15. nóvember 2006 – Tæknileg mistök...

....voru orðin sem Árni Johnsen notaði um óskammfeilna áráttu sína eftir fjármunum annarra. Í viðtali við sjónvarpið nefndi hann auk þess, að hann hefði ákveðið fyrir alllöngu að helga líf sitt starfi fyrir fólkið í landinu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hefi heyrt að þjófnaður frá ríkissjóði sé starf fyrir fólkið í landinu. Allir vita hvernig það fór.
Þessi maður verður væntanlega í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi í Alþingiskosningunum á vori komanda. Ég spyr á móti: Kann þessi maður ekki að skammast sín?

Tæknileg mistök voru sömuleiðis orðin sem ríkisstjórn Ísraels notaði um eldflaug sem geigaði og drap 18 saklausar persónur. Ber að skilja afsökunina sem svo að þeir hafi ætlað að myrða aðrar 18 persónur?

Tæknileg mistök verða vonandi aldrei notuð um hjónavígslu á þessum degi fyrir 31 ári síðan. Ég ætlaði að standa mig í hjónabandi, en það reyndist mér ókleyft og endaði með skilnaði tæpum áratug síðar. Það er kannski mín skömm, en á það ber að líta að ávöxtur þessarar hjónavígslu voru þrjú yndisleg börn sem nú eru uppkomin og farin að geta af sér eigin börn. Maður notar ekki orðið mistök yfir börnin sín, ekki einu sinni tæknileg mistök í því skyni að sópa yfir skömmina.

-----oOo-----

Ég heyrði mjög safaríka kjaftasögu á þriðjudeginum og fjallaði hún um mig. Samkvæmt henni er sæmilega þekkt kona hér á Reykjavíkursvæðinu skilin við eiginmanninn, orðin yfirlýst lesbía og farin að búa með mér. Til að fyrirbyggja misskilning, þá er enginn fótur fyrir þessari annars ágætu kjaftasögu og ég held áfram að búa ein með mínum tveimur kisum.


0 ummæli:Skrifa ummæli