mánudagur, nóvember 27, 2006

27. nóvember 2006 – Ef sama lýgin er sögð nógu oft, fer fólk að trúa henni.

Ég horfði á drottningarviðtal Evu Maríu við Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Í sjálfu sér var fátt nýtt né merkilegt í þessu viðtali. Styrmir vildi sem minnst gera úr þeim deilum sem átt hafa sér stað á milli flokksins og blaðsins og því ekkert fréttnæmt af viðtalinu. Þá klifaði Styrmir enn einu sinni á gömlu Moggalyginni sem honum, Birni Bjarnasyni og Þór Whitehead er svo töm, að kenna vinstrimönnum um þegar Heimdellingar með hjálma og kylfur réðust ásamt lögreglumönnum með táragasbyssur á vopnlausa vinstrimenn sem mótmæltu aðförinni að hlutleysi þjóðarinnar á Austurvelli 30. mars 1949.

Jú eitt fannst mér dálítið merkilegt af því sem fram kom, en ekki af því sem þagað var yfir. Ég hefi löngum talið Styrmi Gunnarsson vera hófsaman hægrimann og í samræmi við þá skoðun mína, taldi ég að Björn Bjarnason hefði fremur ritað Staksteinapistilinn frá 2. október s.l., svo öfgafullur var hann. Nú er ég farin að efast og veit vart hvað ég á að halda í þeim efnum.

Um leið verður Styrmir Gunnarsson að axla ábyrgð Morgunblaðsins á velgengni Fréttablaðsins með hægrisinnuðum skrifum í fyrrnefnda blaðið og undirbúa þannig jarðveginn fyrir dagblað sem ekki er pólitísk málpípa neins ákveðins hægrisinnaðs stjórnmálaafls.


0 ummæli:







Skrifa ummæli