þriðjudagur, nóvember 14, 2006

14. nóvember 2006 – Mikið að gera

Ég tók eftir því á mánudeginum er ég fylgdist með fréttum, að banaslysið á Reykjanesbrautinni átti hug fólks allan. Það er eðlilegt því þarna átti sér stað hörmulegur trassaskapur ásamt hugsanlegum ofsaakstri og ölvunarakstri.

Ég ætla ekki að réttlæta klaufaskap og handvömm vegagerðarmanna. Það er ljóst af fréttum að þeir fóru eftir lágmarkskröfum Vegagerðarinnar. Síðan má deila um hvort lágmarkskröfurnar séu nægar til að tryggja umferðaröryggi. Ef ég er að aka í Svíþjóð á vegi þar sem er 90 km hámarkshraði, kem ég skyndilega að varúðarskilti með merkjum um vegaframkvæmdir og um leið er ljósaskilti sem segir mér að lækka hraðann niður í 70 km/klst. Nokkru síðar kem ég að öðru skilti sem segir mér að lækka niður í 50 og síðan því þriðja, rétt áður en komið er að framkvæmdasvæðinu þar sem ég verð að lækka ofan í 30. Öll eru skiltin lýsandi allan sólarhringinn og þá loksins kem ég að sjálfu framkvæmdasvæðinu með slíku blikkljósasafni að ég kemst ekki hjá því að hægja á mér og aka varlega.

Er ekki kominn tími til að senda vegagerðarvinnuverkstjórana til Svíþjóðar að læra hvernig á að standa að vegaframkvæmdum?

-----oOo-----

Ég er komin í níu sólarhringa frí, á ekki vakt né vinnu fyrr en miðvikudaginn 22. nóvember. Þetta áttu reyndar að verða ellefu sólarhringar, en ég tók eina aukavakt. Samt er hægt að nýta þessa daga til hins ýtrasta. Vinafólk mitt frá hinum ýmsu ríkjum Evrópu og samherjar í baráttunni ætlum að hittast suður á Ítalíu næstkomandi laugardag og bera saman bækur okkar og ræða baráttuna framundan. Sjálf sá ég lengi vel ekki möguleika á að komast á fundinn vegna fjárhagsvandræða, en dýrar framkvæmdir við blokkina hjá mér setja mark sitt á peningamálin. Þá kom lausnin óvænt, en eldri sonurinn bjargaði ferðinni og nú er allt klappað og klárt og ég get farið að raða í ferðatöskuna.

-----oOo-----

Svo fær Surtsey hamingjuóskir með 43 ára afmælið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli