þriðjudagur, nóvember 07, 2006

8. nóvember 2006 – Af vaktinni

Þegar unnið er í 12 tíma og mikið í gangi, verður oft lítið úr bloggi þegar heim er komið. Svo er með mig núna. Ég kom heim, renndi yfir nokkrar bloggsíður, fór í bað og svo er stefnan á rúmið. Einhver þreyta er búin að angra mig að undanförnu og bendir slíkt meðal annars til að ég hafi vakað of lengi frameftir á kvöldin og samið blogg í stað þess að njóta minna átta tíma í rúminu.

Mig langar þó rétt sem snöggvast til að óska Hle....., afsakið Kal....., afsakið aftur, Naglanum til hamingju með að hafa fundið sitt rétta athvarf í pólitíkinni samanber athugasemdir hans við bloggið hjá mér í gær. Ég vona það heitt og innilega að hann muni halda áfram að vera dyggur og trúr stuðningsmaður Frjálslynda flokksins og að hann láti skoðanir sínar uppi við sem flesta. Það verður okkur, andstæðingum Frjálslyndra, til mikils framdráttar.

Sjálf held ég áfram að hvetja sem flesta kjósendur Samfylkingarinnar til að styðja við Guðrúnu Ögmundsdóttur í prófkjörinu á laugardaginn.

-----oOo-----

Á þriðjudagsmorguninn gleymdi ég að minnast á ártíð forföður allra sannra Íslendinga, Jóns biskups Arasonar, sem var tekinn af lífi 7. nóvember 1550. Það er tilvalið að minnast ofbeldisverka þessa manns á ártíð hans, á sama tíma og hinir hreinræktuðu arísku niðjar hans mótmæla innflutningi útlendinga til landsins.


0 ummæli:







Skrifa ummæli