laugardagur, nóvember 04, 2006

4. nóvember 2006 - Umferðaröryggi, Laugardalsætt ofl.

Á þessu hausti hafa verið háværar raddir um aðgerðir gegn ofsaakstri og lofaði Sturla Böðvarsson að grípa til úrræða. Ég óttaðist græðgi ráðherrans og að fundnar yrðu upp aðgerðir til að auka hag ríkissjóðs á kostnað baráttunnar fyrir umferðaröryggi. Nú blasir raunveruleikinn við okkur. Hækkanir á sektum um 60% og að auki er formaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa kallaður í sjónvarp til að lýsa blessun sinni á hinni nýju reglu samgönguráðherrans.

En var hann að beita sér gegn ofsaakstri? Nei segi ég. Hann var að innheimta sektir fyrir lögreglukórinn og ríkisvaldið. Hinar nýju reglur munu sennilega engu breyta fyrir umferðaröryggi og ef eitthvað er, skapa nýjar hættur vegna nýrrar streitu í umferðinni sem skapast með því að fólk er sektað þótt það telji sig vera á löglegum hraða. Um leið og samgönguráðherrann innleiddi nýjar reglur lækkaði hann sektarmörk fyrir hraðaakstur úr +10 km umfram gildan hámarkshraða í +5 km umfram hámarkshraða. Þar með er þetta ekki lengur spurning um hraðakstur, heldur hrein skattheimta. Eftir situr baráttufólk fyrir umferðaröryggi með sárt ennið því það var haft að fíflum.

Hér með legg ég til að Sturla Böðvarsson verði rekinn úr embætti samgönguráðherra! Hann er verri en enginn.

-----oOo-----

Á föstudagskvöldið fékk ég Laugardalsættina í hendur, mikið rit í stóru broti og rúmlega þúsund blaðsíður. Ég mun hafa nóg að lesa um helgina, enda þekki ég fjölda fólks sem tilheyrir þessari ætt og samfagna með þeim í anda. Ég vil óska Sigurði vini mínum Hermundarsyni til hamingju með þetta nýja bókmennta- og ættfræðiverk.

-----oOo-----

Hle.... afsakið Kallinn, kom inn ellefu sinnum á föstudag síðan klukkan 08.16 föstudagsmorguninn, rétt nýskriðinn heim af næturvaktinni og síðast klukkan 23.39 á föstudagskvöldið. Hann er greinilega að bíða þess að einhver segi eitthvað skemmtilegt um hann. Ég skil ekki þessa þrjósku í Kallinum. Er hann virkilega svo vitlaus að hann fatti ekki að ég fyrirgaf honum ruglið fyrir hönd Drottins allsherjar á miðvikudagskvöldið? Halelúja!


0 ummæli:







Skrifa ummæli