sunnudagur, nóvember 26, 2006

26. nóvember 2006 - Tæknileg mistök Framsóknar

Ég var að velta því fyrir mér á meðan ég skrifaði pistilinn um Oliver Twist að ég hefði ekki lagt Framsóknarflokkinn í einelti í lengri tíma. Það er þó svo sannarlega kominn tími til þess.

Hinn aldni en nýi formaður Framsóknarflokksins hélt ræðu í dag á miðstjórnarfundi flokksins þar sem hann hann dró aðeins í land stuðning Framsóknarflokksins við innrásina í Írak. Eftir á heyrðist viðtal við Valgerði og vildi hún gera sem minnst úr orðum formannsins og hefði sennilega stutt innrásina miðað við þær forsendur sem þá voru fyrir hendi.

Það er stutt í kosningar. Það er ljóst að stuðningur Framsóknarflokksins við innrásina ætlar að verða honum fjötur um fót og ekki hafa formannsskiptin aukið fylgi flokksins. Það er því ljóst að grípa þarf til neyðarúrræða og losa sig við hernaðarhyggjuna og milda aðeins yfirbragð flokksins. Tal formannsins hljómaði því meira eins og tæknileg mistök stjórnar Ísraels sem ætlaði ekki að drepa þessa fjölskyldu heldur einhverja aðra, eða tæknileg mistök Árna Johnsen sem fólust í því að láta koma upp um sig.

Nei, ef Framsóknarflokkurinn vill halda andlitinu er aðeins eitt að gera, biðja írösku þjóðina afsökunar á stuðningi við fjöldamorðin í Írak og íslensku þjóðina afsökunar á að hafa stutt við innrásina. Jafnframt ber formanninum að draga opinberlega til baka stuðning Framsóknarflokksins við innrásina. Þá fyrst getum við velt því fyrir okkur hvort við fyrirgefum Framsóknarflokknum “mistökin”.

-----oOo-----

Af því að laugardagurinn er liðinn, er sjálfsagt að segja frá síðustu úrslitum í enska fótboltanum, allavega þeim úrslitum sem skipta máli og eru öllum gleðiefni.

Þar ber fyrst að nefna hetjurnar hugprúðu í Halifaxhreppi sem enn einu sinni sýndi sína olympísku hlið og töpuðu fyrir Kröflubæ í kvenfélagsdeildinni. Þá vann Sameining mannshestanna Dómínókubbana með sjö mörkum gegn engu í efstu Vestfjarðadeild og loks vann hinn illræmdi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Bolton að nafni, þið vitið, þessi með hárkolluna og að því er virðist, álímda yfirvaraskeggið, Rassenal með þremur mörkum gegn einu í litlu deildakeppninni.

1 ummæli:

  1. "Nei, ef Framsóknarflokkurinn vill halda andlitinu er aðeins eitt að gera, biðja írösku þjóðina afsökunar á stuðningi við fjöldamorðin í Írak og íslensku þjóðina afsökunar á að hafa stutt við innrásina. Jafnframt ber formanninum að draga opinberlega til baka stuðning Framsóknarflokksins við innrásina."

    Þú þarft að klára setninguna...

    ... Sleppa Saddam Hussein lausum, biðja hann afsökunar á að hafa fangelsað hann og dregið saklausan fyrir dóm. Koma Saddam svo aftur til valda og safna svo fé og greiða honum skaða og miskabætur fyrir það tjón sem innrásin olli honum.

    Þannig verður allt eins og það var fyrir þessa óréttmætu innrás.

    SvaraEyða