laugardagur, nóvember 18, 2006

18. nóvember 2006 – 2. kafli - Schumacher númer tvö í Tórínó

Það rigndi þegar ég kom til Tórínó. Það var engin smárigning. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Ég var orðin of sein til fundar og flýtti hvað ég gat í gegnum flugstöðina og út í leigubíl sem var þar fyrir utan og svo var ekið af stað.

Mér fannst leigubílstjórinn keyra hratt þótt ekki hefði ég óskað eftir því við hann að flýta sér og spennti öryggisbeltin þar sem ég sat afturí. Á hraðbrautinni frá flugvellinum og inn í borgina var 100 km hámarkshraði og ég sá mælinn liggja í 140 í úrhellinu og þótt varla sæist framfyrir bílinn vegna bleytunnar. Svo komum við að framkvæmdasvæði, 80, svo 60, loks 40, en bílstjórinn virtist taka öllum skiltunum sem áskorun því skyndilega var hann kominn upp í 160.

Fáeinum mínútum og tíu nöglum síðar var hann kominn að hóteldyrunum þar sem fólkið átti ekki von á mér fyrr en löngu síðar. Ekki sá mikið af andliti bílstjórans, en hann hlýtur að vera búinn að sækja um plássið hans Michaels Schumacher hjá Ferrari.


0 ummæli:







Skrifa ummæli