sunnudagur, nóvember 05, 2006

6. nóvember 2006 – Drag under galoscherna ...

... eða að gefa spark með bomsunum, voru einkennisorð hins nýstofnaða stjórnmálaflokks, Ny demokrati í Svíþjóð árið 1991 undir forystu félaganna Bert Karlsson og Ian Wachtmeister. Þetta var hægrisinnaður svokallaður óánægjuflokkur sem barðist gegn því sem þeim fannst óþarfa skrifræði og bákn, en trúir hinum sanna pópúlisma hétu þeir því að hefta mjög innflutning flóttafólks til Svíþjóðar. Í þingkosningunum í september sama ár vann hinn nýi flokkur glæsilegan sigur og fékk 25 þingmenn kjörna á þing. Ny demokrati kom nánast engum málum í gegnum þingið á þremur næstu árum og í þingkosningunum 1994 þurrkaðist flokkurinn út af þingi og lognaðist svo smám saman útaf.

Frjálslyndi flokkurinn á Íslandi minnir mig að sumu leyti á Ny demokrati. Flokkurinn var stofnaður vegna óánægju, m.a. með kvótakerfið, af mönnum sem höfðu sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Síðar bættust við menn sem höfðu sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna náttúruverndarsjónarmiða, en nú hefur enn einn óánægjuhópurinn gengið til liðs við Frjálslynda flokkinn, þeir sem vilja hefta innflutning erlends vinnuafls til landsins. Frjálslyndi flokkurinn líkist orðið æ meira Ny demokrati. Ég óttast að brátt verði ekki lengur pláss fyrir formanninn í flokknum, ekki frekar en Ian Wachtmeister er hann kvaddi Ny demokrati árið 1994.

Rétt eins og Ny demokrati náði miklu fylgi í kosningunum í Svíþjóð 1991 vegna andúðar á útlendingum, óttast ég að hið sama verði uppi á teningunum hjá Frjálslynda flokknum á Íslandi vorið 2007.

-----oOo-----

Enn eru Bandaríkjamenn og leppar þeirra í Írak við sama gamla heygarðshornið. Með því að dæma Saddam Hussein til dauða eru þeir að gera þennan gamla harðstjóra og fjöldamorðingja að píslarvotti. Daginn sem dauðadómnum verður fullnægt, mun allt fara í bál og brand í Írak og ólíkar fylkingar munu berjast innbyrðis sem og gegn sameiginlegum óvini þeirra, Bandaríkjamönnum.

Lifandi Saddam í dýflissu er betri en dauður Saddam sem þarf að hefna. Þetta skilja ekki stríðsæsingamenn á borð við Bush og Rumsfeld.

-----oOo-----

Ég ítreka enn og aftur stuðning minn við Guðrúnu Ögmundsdóttur. Auk hennar er einvalalið í framboði, Ingibjörg Sólrún, Ásta Ragnheiður, Jóhanna Sig., Steinunn og Bryndís ofl. Þá má ekki gleyma strákunum, þar á meðal Ágúst Ólaf sem ég rak úr ætt við mig um leið og ég rak Björn Inga úr ættinni. Báðir þessir menn eru komnir af Ólafi Péturssyni (1764-1843) bónda og skipasmið á Kalastöðum á Hvalfjarðarströnd, miklum merkismanni sem þó var ekki ættfaðir minn eins og ættbækur bentu til.


0 ummæli:







Skrifa ummæli