miðvikudagur, nóvember 29, 2006

29. nóvember 2006 – Af rusli


Eins og flestum lesendum mínum ætti að vera kunnugt, þá er ég ákaflega vanaföst manneskja. Á hverjum morgni rölti ég niður stigana, fer fram í anddyri og sæki dagblöð dagsins, Morgunblaðið, Fréttablaðið og hitt Blaðið. Þegar lestrinum er lokið, set ég blöðin í kassa þar sem ég hefi áður lagt spotta undir. Þegar mér finnst kominn góður slatti blaða kominn í kassann, sæki ég enda spottanna og set hnút á dæmið og fer með í næsta blaðagám.

Í kvöld fannst mér kominn tími til. Vandamálið var bara að ég hafði ekki tæmt kassann í þrjá mánuði. ég batt og batt og batt og loksins fór ég með mikinn bunka blaða í blaðagáminn. Þetta voru Morgunblaðið sem sífellt virðist þynnra og þynnra, Fréttablaðið sem bólgnar út eins og púkinn á fjósbitanum og loks hitt Blaðið. Þetta var burður á blöðum samanber mynd sem fylgir. Meðfylgjandi mynd er af blaðabunkanum.

Fer þessu ekki bráðum að linna?

-----oOo-----

Ég hefi lent í nokkrum vandræðum vegna litaskipta á blogginu mínu. Ég skipti yfir í beibíkúkabrúnan lit og mótmælunum rigndi yfir mig. ég skipti því yfir í Framsóknargrænan og þá tók ekki betra við. Vissulega varð breytingunni fagnað af góðum Framsóknarmönnum, en hinir mótmæltu sem aldrei fyrr. Sit ég nú uppi með lit sem flestir virðast hata. Einhverjar tillögur?


0 ummæli:







Skrifa ummæli