þriðjudagur, nóvember 28, 2006

28. nóvember 2006 – Hógværð er dyggð

Fyrir nokkrum árum síðan náði Ólafsfirðingurinn Kristinn Björnsson þeim ágæta árangri að verða í öðru sæti í svigkeppni í skíðabrekkunum í Lake Placid í Bandaríkjunum. Þetta þótti þess meira afrek að Íslendingar hafa löngum þótt standa sig langtum aftar öðrum þjóðum í vetraríþróttum og er þetta afrek vissulega þess virði að minnast þess og vafalaust mesta afrek Íslendinga í vetraríþróttum. Á Ólafsfirði var öllu meira gert úr afreki Kristins og einhverjir Ólafsfirðingar héldu því óhikað fram
að afrek Kristins væri mesta íþróttaafrek Íslendings fyrr og síðar.

Eitthvað uppveðruðust Ólafsfirðingar við þessi ummæli og fóru að gera óhóflegar kröfur til Kristins sem þoldi illa álagið sem á hann var lagt og því fór sem fór og Kristinn datt.

Mánudaginn 27. nóvember berast þær fréttir út til þjóðarinnar að nótaskipið Guðmundur Ólafur ÓF-91 frá Ólafsfirði hafi náð mesta síldarafla sem um getur í einu kasti eða 1350 tonn. Af einhverjum ástæðum datt mér í hug vesalings Kristinn þegar ég heyrði þessa frétt. Ég minnist þess í þessu sambandi, er ég var um borð í Hólmaborginni á síldveiðum fyrir nokkrum árum, að við fylltum skipið í þremur köstum, um 2300 tonn og var þriðja kastið langstærst. Nægði restin til að fylla Jón Kjartansson sem var langt kominn að fylla sig auk þess að fylla Hólmaborgina.

Mér þótti kastið merkilegt, þótt ekki þori ég að fullyrða að umrætt kast hafi verið mikið stærra en “stærsta kast sögunnar”, en Eskfirðingar yppta bara öxlum við slík stórköst og þykja þau engin fréttaefni. Sat þó fréttaritari DV á Eskifirði á skrifstofu útgerðarfélagsins og hefði verið í lófa lagið að blása út fréttina. Kannski gildir bara gamla reglan, að það sem aflaklónni finnst lítið finnst fiskifælunni vera stórt.

Hógværð er dyggð.

Sama dag og aflafréttin mikla berst alþjóð, er þess getið að 50 ár eru liðin frá því Vilhjálmur Einarsson náði silfurverðlaunum á ólympíleikunum í Melbourne. Ekki ætla ég að níða niður það ágæta afrek, ekki fremur en afrek Kristins Björnssonar á skíðum. Hinsvegar er það gott dæmi um hve íslenskir íþróttamenn hafa staðið sig illa á alþjóðavettvangi, þó að þessum köppum og örfáum fleirum undanskildum, að í dag er þess minnst að hálf öld er liðin frá mesta íþróttaafreki Íslendings.

Íslendingar hafa fengið þrenn verðlaun á ólympíuleikum, eitt silfur og tvö brons. Með þessum þremur verðlaunapeningum standa þeir sig verst Norðurlandanna í verðlaunum á ólympíuleikum, einnig miðað við fólksfjölda. Ég skal þó ekki fullyrða hvort Færeyjar og Grænland hafi staðið sig ver, enda ókunnugt um hvort íþróttamenn þaðan hafi unnið til verðlauna í liði Danmerkur.

Hógværð er dyggð.

-----oOo-----

Eins og mínir dyggu og tryggu lesendur hafa veitt athygli, hefi ég tvisvar skipt um lit á síðunni minn á tveimur dögum. Það byrjaði með því að ég var orðin leið á skærbleika litnum sem minnti helst á 8 ára stelpu blogg, en ekki virðulegrar 54 ára konu sem er farin að nálgast eftirlaunaaldurinn. Því fór ég yfir á ljósbrúna litinn sem mér þótti hæfilega mildur, en þá tók ekki betra við. Mótmælunum rigndi inn og fólk virtist ekki vilja sjá þennan fallega beibýkúkabrúna lit og krafðist einhvers annars. Því ákvað ég að setja inn þennan vinstrigræna lit, reyndar örlítið upplitaðan, en það er bara í stíl við upplitaðar skoðanir lesenda minna.


0 ummæli:Skrifa ummæli