fimmtudagur, nóvember 16, 2006

16. nóvember 2006 – Að vera í Evrópusamstarfi

Eins og ég hefi verið að monta mig af, þá er ég að fara í helgarferð til Tórínó á Ítalíu á föstudaginn, en þar ætlar stjórn Evrópsku transgendersamtakanna (TGEU) að hittast og ræða starfsemina framundan. Allt er þetta óskaplega gott og ég uppfull tilhlökkunar að hitta vinina og vinkonurnar, ræða við þau málin og borða og drekka saman og kannski skreppa saman út á lífið eina kvöldstund og versla lítilsháttar jólagjafir á mánudeginum áður en haldið verður heim.

Einhver skaut að mér þeirri spurningu hvort fólkið væri eins og trönsurnar í sjónvarpsþáttunum í Little Britain. Því er til að svara að svo er ekki. Að venju mætir tugur til hálfur annar tugur fólk af öllum stærðum og gerðum, karlar og konur og fólk sem ekki vill skilgreina kyn sitt, yfirleitt fólk sem er búið að reyna ýmislegt í lífinu í gegnum margra ára baráttu og er tilbúið að aðstoða og styðja annað fólk í sömu aðstæðum við að takast á við lífsbaráttuna.

Einn er þó reginmunur á mér og öllum hinum í þessu Evrópusamstarfi. Mörg koma akandi á eigin bílum að heiman, frá Þýskalandi, Austurríki, en Rosanna kemur til fundar með strætó eða á reiðhjólinu. Önnur koma með lest og fólkið frá Bretlandseyjum kemur með flugi. Ég ein þarf að millilenda og bíða á flugvelli í marga klukkutíma og síðan gista á heimleiðinni. Að auki þarf ég að reiða af hendi það gjald sem fylgir því að búa í einu dýrasta landi í heimi og greiða himinhátt lausnargjald fyrir að komast frá átthagafjötrunum. Þannig þarf ég að greiða yfir 30 þúsund krónur fyrir ferðina með “lággjaldafélaginu” Iceland Express, Keflavík-Stansted-Keflavík, en einungis fimm þúsund krónur með Ryan Air fyrir ferðina Stansted-Torino-Stansted. Ég vil þó taka fram að sú þjónusta sem ég hefi fengið af hálfu starfsfólks Iceland Express hefur verið framúrskarandi og á það jafnt við um starfsfólk á jörðu niðri sem og flugáhafnir.

Reyndar hefi ég aðeins einu sinni orðið fyrir vonbrigðum með þjónustuna um borð, en það var hjá SAS og danskur flugþjónninn átti annað hvort slæman dag eða var löngu búinn að missa áhugann á starfi sínu og hálfpartinn kastaði viðbitinu í farþegana.

Loks vil ég taka fram að ég hefi einu sinni fengið styrk vegna þessara ferða minna. Það var frá Samtökunum 78 með því að ég sat hluta af alþjóðaráðstefnu Alþjóðasamtaka samkynhneigðra í Genf í Sviss ásamt með þátttöku minni í fundum Evrópsku transgendersamtakanna og ráðstefnu ILGA (Alþjóðasamtök samkynhneigðra) um transgender málefni og málefni tengd atvinnuþátttöku. Ég kann Samtökunum 78 mínar bestu þakkir fyrir einlægan stuðning. Ef einhver veit um aðila sem vilja styrkja þátttöku Íslendinga í slíku alþjóðasamstarfi, má hann eða hún gjarnan láta mig vita. Ég get ekki látið fjárvana fjölskylduna styrkja mig aftur til slíkra ferða eða sótt endalaust úr eigin vasa ofan á hefðbundna lífsbaráttu.

-----oOo-----

Loksins fær Jónas (sá sem gaf okkur fallegustu ljóð íslenskrar tungu) innilegar hamingjuóskir með 199 ára afmælið.


0 ummæli:Skrifa ummæli