laugardagur, nóvember 18, 2006

18. nóvember 2006 – Ítali með tvo farsíma

Þegar ég beið í biðröð á Stansted eftir innritun í flugið til Ítalíu, veitti ég athygli manni á milli þrítugs og fertugs sem var að tala í síma. Þetta var myndarlegur maður, óaðfinnanlega klæddur og snyrtur og talaði látlaust í síma. Málrómurinn var sterkur og ítalskan hjá honum var óvenjuskýr og auðvelt fyrir mig að greina orðaskil. Það var bara að maðurinn var með farsíma í báðum höndum og hringdi í þá til skiptis, en talaði einungis í annan þeirra, talaði hátt og mátti ætla að hann væri í góðu sambandi við móður sína.

Maðurinn bar það með sér að vera algjör frekjuhundur, tróð sér framfyrir einn að öðrum í biðröðinni og í hvert sinn tók hann upp símann og hringdi í mömmu. Áður en langt um leið stóð hann fremstur í biðröðinni og þar af leiðandi fyrstur til að innrita sig. Hann var fyrstur að afgreiðsluborðinu út í vél og hringdi í mömmu að venju, en þá fór í verra. Það hafði orðið seinkun á komu flugvélarinnar vegna úrhellisrigningar og að auki hafi raninn slegið út og því þurftu farþegarnir að hlaupa út að vél í rigningunni. Minn maður óttaðist að leysast upp í rigningunni og fór í regnjakka og hringdi í mömmu, en á meðan ruddust margir farþegarnir framhjá honum og út í vél og mér sýndist hann fá afleitt sæti í vélinni (það eru ekki númeruð sæti hjá Ryan Air).

Svo var flogið af stað og maðurinn þagði þessa tæpu tvo tíma sem flugið tók. Um leið og vélin var lent heyrði ég hvar hann kallaði í mömmu. Það var sama sagan í Tórínó, úrhellisrigning, enginn rani og farþegarnir þurftu að fara með flugvallarrútu að flugstöðinni. Ítalinn okkar komst ekki í fyrri rútuna, en varð að bíða undir vængnum eftir næstu rútu. Hið síðasta sem ég heyrði til hans var inni í flugstöðinni, en hann var þá enn úti við dyr í langri biðröð að vegabréfaskoðun og talaði við móður sína svo hátt, að öll flugstöðin heyrði hvert einasta orð.

Ég er enn að velta hinum símanum fyrir mér. Úr því annar farsíminn var auðsjánlega til að vera í beinu sambandi við mömmu, ætli hinn síminn hafi verið til Drottins allsherjar?


0 ummæli:







Skrifa ummæli