sunnudagur, nóvember 05, 2006

5. nóvember 2006 – Nýtt útlendingahatur

Þegar ég bjó í Svíþjóð brast skyndilega á mikill flóttamannastraumur frá Kosovo-Albaníu til Svíþjóðar, löngu áður en allt fór í bál og brand í héraðinu. Þessir flóttamenn fengu vist í flóttamannabúðum víða um landið á meðan mál þeirra voru könnuð og metið hvort þeir ættu skilið að fá landvistarleyfi. Meðal þeirra sveitarfélaga sem tóku á móti flóttamönnum um tíma var Solna sem er álíka langt frá Stokkhólmi og Seltjarnarnes frá Reykjavík. Solnabúar þóttust strax sjá merki um aukna glæpatíðni með tilkomu flóttamannanna frá Kosovo-Albaníu og gengu sögurnar um bæinn um gripdeildir af þeirra völdum, eða eins og einn brandarinn sagði:
“Ef þú sérð Kosovo-Albana á reiðhjóli, ekki keyra á hann. Hann gæti verið á þínu reiðhjóli.”

Fyrir skömmu síðan féllu grunsemdir á nokkra útlendinga þess efnis að þeir hefðu ætlað að nauðga giftri konu á salerni veitingastaðar í Reykjavík. Síðan þetta var, hafa raddir verið háværar þess efnis að vísa beri sem flestum útlendingum úr landi og að takmarka þurfi búsetu útlendinga hér á landi, þá aðallega Pólverja og Litháa. Þvílíkur kjánaskapur.

Ég vona að ég sé að miklu leyti læknuð af þjóðrembu Íslendingsins. Mér þykir vænt um landið mitt, en lít samt svo á að flestir þeir útlendingar sem ég hefi hitt hér á landi séu ágætis fólk og séu Íslandi til sóma sem og sínum gömlu heimkynnum. Það eru til skussar innanum, en á sama tíma er einnig mikill fjöldi Íslendinga sem síst hafa efni á þjóðrembu. Við erum einfaldlega ekkert betri eða verri en aðrar þjóðir. Um leið skal ég viðurkenna að það er erfitt að fá mikinn fjölda útlendinga til mjög fámenns lands, en slíkt á að leysa með takmörkunum á framkvæmdum fremur en takmörkunum á því hverjir fá að koma til landsins.

En í guðanna bænum, ekki hengja allan hópinn fyrir þessa örfáu sem gera eitthvað af sér.

-----oOo-----

Hle.... afsakið Kallinn er greinilega mjög hrifinn af skrifum mínum þrátt fyrir orð sín í minn garð. Það er ekki aðeins að “kallinn” og “Hlerinn” heimsóttu bloggið mitt 15 sinnum á föstudag, heldur heimsótti “kallinn” mig 13 sinnum á laugardag, en þá var “Hlerinn” á frívakt. Ég fer að halda að “Kallinn” sé yfirmáta hrifinn af mér eða skrifum mínum. Ég fer alveg hjá mér vegna þessa leynda aðdáanda. Svo er hann svo einstaklega duglegur við að sýna auknar gestakomur inn á bloggsíðuna mína :)

-----oOo-----

Ég er farin að hafa áhyggjur af vesalings hetjunum mínum í Halifaxhreppi. Þær hafa nú tapað þremur leikjum í röð og eru komnar hættulega nærri rauða strikinu í kvenfélagsdeildinni sem skilur á milli feigs og ófeigs. Öllu betur gengur hjá hinu liðinu mínu, þ.e. Sameiningu Mannshestahrepps sem nú eru með 51 stig eftir 18 leiki í fyrstu Vestfjarðadeildinni og 61 mark í plús.

-----oOo-----

Ég vil loks taka fram að ég hefi lýst yfir stuðningi mínum við Guðrúnu Ögmundsdóttur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík 11. nóvember næstkomandi og hvet allt það fólk sem getur kosið í prófkjörinu að styðja hana sem og sem flestar konur í prófkjörinu. Guðrún Ögmundsdóttir er svo skemmtilega heil í baráttunni fyrir jafnrétti þegnanna að hún var í hópi fólks sem studdi jafnréttisbaráttu samkynhneigðra á áttunda áratug síðustu aldar, þ.e. fyrir stofnun Samtakanna 78 þótt hún sé gagnkynhneigð. Hún er frábær og hefur svo sannarlega sýnt okkur hvers hún er megnug.


0 ummæli:Skrifa ummæli