laugardagur, nóvember 25, 2006

25. nóvember 2006 – Oliver Twist og kisurnar mínar

Einhver sterkasta kvikmyndaminning sem ég man frá æskunni, er sviðsmyndin af Oliver Twist á munaðarleysingjahælinu þar sem glorhungraðir krakkarnir horfa á starfsfólkið gæða sér á veisluréttum, en fá sjálf ekkert annað en leifarnar og illa það (útgáfan frá 1948?). Þarna var starfsfólkið sýnt sem hið illa í heiminum og andstæðan voru saklaus og munaðarlaus og óhrein börnin sem gátu lítið gert sjálfum sér til bjargar og í örvæntingu sinni drógu um það hvert ætti að biðja um meiri mat og Oliver Twist skjálfandi af hræðslu gekk til förstöðumannsins og sagði þessi fleygu orð sín: “Please, sir, I want some more”

Ég á það til að elda mér góðan mat sem gefur góða lykt og þá bregst ekki að kisurnar mínar koma hlaupandi og slefandi bíða þær færis að fá sér bita. Einhverju sinni hafði ég soðið mér sviðakjamma og sett á disk til að lofa honum að kólna aðeins áður hans yrði neytt. Ég þurfti að bregða mér frá í eina eða tvær mínútur og þegar ég kom aftur, var kjamminn horfinn. Hrafnhildur ofurkisa hafði þá dröslað honum niður á gólf og undir borð og nagaði hann af miklum móð. Eftir smástund gafst hún upp á kjammanum og snéri sér að venjulegum kattamat að venju. Eftir sat ég glorhungruð og hafði ekki lyst á matnum sem kötturinn hafði rænt frá mér.

Þrátt fyrir þessa hegðun kattanna, fæ ég alltaf hálfgert samviskubit þegar ég elda og kisurnar horfa slefandi á matinn sem ég er að búa mig undir að borða. Líður mér þá eins og starfsfólkinu á munaðarleysingjahælinu hlýtur að hafa liðið þegar það hámar í sig góðgætið og munaðarleysingjarnir, þau Hrafnhildur, Oliver Twist og Tárhildur horfa glorsoltin á.


0 ummæli:







Skrifa ummæli