fimmtudagur, nóvember 30, 2006

30. nóvember 2006 – Heimsókn

Ég fékk heimsókn á miðvikudag. Þetta var engin venjuleg heimsókn, heldur var um að ræða stúlku sem hafði einhverntímann verið í sömu aðstöðu ég var fyrr á árum, en hafði síðar lokið við aðgerðarferli í sínu heimalandi. Nú var hún sest að á Íslandi ásamt nánustu ættingjum sínum og fann fyrir einmanaleika í ókunnu landi.

Ég viðurkenni að ég var dálítið taugaóstyrk fyrir komu hennar. Ég vissi ekkert hverri ég átti von á, né hvort hún væri sú sem hún sagðist vera, eða hvort hún væri líkleg til að standast íslenskt samfélag, en komst fljótlega að því að hún stendur fyllilega undir því að fólk beri virðingu fyrir henni.

Stúlkan er í fullri vinnu á Íslandi og stendur sig vel. Hún er því enginn kostnaður fyrir samfélagið, heldur ein þeirra sem koma hingað til lands með sína uppfræðslu og menntun í farteskinu. Með komu sinni til Íslands eykur hún enn á fjölbreytileika samfélagsins og sjálf fyllist ég stolti yfir fallegri konu sem er að hasla sér völl í nýju landi og nýrri menningu.

-----oOo-----

Svo fær Oddur skrásetjari ættfræðiupplýsinga hamingjuóskir frá mér með 65 ára afmælið í gær, þótt ég efist um að hann vilji taka við óskunum frá mér.


0 ummæli:Skrifa ummæli