mánudagur, janúar 01, 2007

1. janúar 2007 – Góðar kisur


Þá er nýársnóttin liðin, þessi versta martröð allra dýra á Íslandi. Fyrir mannfólkið var hún ósköp róleg og var haft eftir lögreglunni í fréttum, að hún hefði farið vel fram og verið stórslysalaus. Það var að vísu eitthvað um augnslys, líkamsárásir og hnífsstungur, hugsanlega ölvunarkastur, rúðubrot og þess háttar. En ekkert alvarlegt ef draga má lærdóm af fréttunum.

Hrafnhildur ofurkisa varð svo skelkuð við hávaðann að hún gerði á sig af hræðslu. Að vísu beitti hún skynseminni og faldi sig ofan í baðkari þar sem hún gerði stykkin sín í hræðslukasti. Betur að allar kisur væru svona skynsamar í stað þess að fela sig undir rúmi. Sjálf var ég í huggulegu nýársteiti hér í húsinu og gat litið til kattanna um leið og ég fékk mér annan drykk.

Með því að þessum hávaða er lokið, fer ég að velta fyrir mér gagnseminni og gleðinni af öllu þessu fýrverkeríi. Í garðinum á bakvið blokkina var fjöldi ungra manna komnir saman og dunduðu sér við við sprengja og skjóta upp flugeldum. Hinn mikli reykur sem lagði af öllum blysunum, skotkökunum, stjörnulljósunum og flugeldunum var svo mikill að vart sást grilla út fyrir garðinn og því fátt að sjá við önnur hús. Hávaðinn var gífurlegur og góð heyrnarskjól nauðsynleg, ekki síður en hjálmurinn og hlífðargleraugun. Kínverjar eru bannaðir á Íslandi og hefur svo verið í marga áratugi. Nú kaupa unglingarnir heilu lengjurnar af púðurkerlingum, klippa í sundur og eru þar með komnir með hundruð löglegra kínverja sem þeir sprengja svo rétt eins og unglinga hefur verið siður í hálfa öld eða lengur.

Svona hefur þetta verið undanfarin ár. Í fyrra kom ég við hjá bróður mínum í Grafarvogi um miðnættið og þar var íbúðargatan eins og eftir loftárás og fátt sást í næstu götum annað en þykkur reykur og einn og flugeldur sem sást skjótast upp úr reykjarkófinu. Árin á undan bjó ég á sjöttu hæð í stórri blokk í Krummahólum og gat séð Árbæjarhverfið hverfa í reyk hálftíma fyrir áramótin.

Ég hefi ekkert á móti flugeldum og blysum á gamlárskvöld og hefi gaman af að sjá slíkt í góðu hófi. Undanfarin gamlárskvöld hafa hinsvegar farið langt framúr góðu hófi og kominn tími til að hugsa sig um áður en meira er skotið upp.

Hvar eru umhverfisverndarsinnarnir núna?

Svo var Ómar Ragnarsson valinn maður ársins af Rás 2 fyrir tillögu sína sem hefði valdið alvarlegri fjárhagskreppu á Íslandi í mörg ár.

Með þessum orðum óska ég öllum nær og fjær gleðilegs árs og friðar.

P.s. Ég ætla svo að vona að ósk Glitnis um ógeðslegt ár verði ekki að veruleika samanber auglýsingu þar sem ung stúlka er látin segja að nýja árið verði ógeðslegt (eða ógeðslega gott).


0 ummæli:







Skrifa ummæli