laugardagur, janúar 27, 2007

27. janúar 2007 – Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Þegar ég flutti aftur til Íslands sumarið 1996 eftir langa dvöl í Svíþjóð og eftir að hafa farið þar í gegnum aðgerðarferli sem íslenskum stjórnvöldum var fyrirmunað að veita mér, sýndu margir Íslendingar mér lítilsvirðingu, þar á meðal fólk í opinberri stjórnsýslu þótt ég vilji ekki nefna nein nöfn í því sambandi. Hinsvegar sýndu aðrir aðilar mér þá reisn og mannvirðingu sem öllum manneskjum ber að fá. Meðal þeirra var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri. Með framkomu sinni sýndi hún mér það að hún væri leiðtogaefni. Mér finnst tilhlýðilegt að rifja þetta upp hér þegar sífellt er verið að rægja hana niður í undanfara kosninga, jafnvel af ætluðum samflokksmönnum sínum.

Ég þekki sögu Samfylkingarinnar ekki mjög vel. Þó er sem mig minni að það hafi einmitt verið innkoma Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í landsmálin sem varð kveikjan að hinum mikla sigri Samfylkingarinnar við síðustu alþingiskosningar. Að minnsta kosti heyrði ég á tal margra kvenna sem ákváðu að styðja hana með atkvæði sínu í þeim kosningum. Á sama hátt átti Ingibjörg hug og hjörtu margra í formannskjörinu fyrir um tveimur árum og veit ég sömu konur sem gengu til liðs við Samfylkinguna þá til að tryggja henni brautargengi.

Síðan þetta var, hafa karlarnir náð fyrri stöðu í flestum kjördæmum í gegnum prófkjör og smölun, hugsanlega vegna ófullnægjandi kosningareglna. Það er miður á sama tíma og önnur framboð hafa beitt flettulistum til að tryggja jafna stöðu kynjanna til setu á löggjafarsamkundu þjóðarinnar.

Fallandi gengi Samfylkingarinnar verður því fremur að skrifa á valdabaráttu gráðugra karla sem svífast einskis til að smala áhugalausu fólki til stuðnings við sig. Ingibjörg Sólrún Gisladóttir hefur ekki þurft á slíku svindli að halda.

-----oOo-----

Á miðvikudag fékk ég rúmlega 2400 heimsóknir á Moggabloggið mitt, en rétt rúmlega 500 á föstudag.
Ég fer að halda að Moggabloggið sé álíka óútreiknanlegt og íslenska handboltalandsliðið. Ef þessu heldur svona áfram, brotna ég álíka illa saman og íslenska þjóðin eftir tapið gegn Slóveníu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli