sunnudagur, janúar 07, 2007

7. janúar 2007 - Evrur

Þegar tvö núll voru klippt af krónunni fyrir réttum 26 árum, var haft á orði, að aðgerðin sem slík myndi slá á óðaverðbólguna sem þá var í gangi. Fólk myndi skilja betur hvað það væri með í höndunum þegar hver króna yrði skyndilega einhvers virði í stað gömlu flotkrónunnar sem var framleidd úr gæðaáli og gat því flotið á vatni. Þessi von ráðamanna brást algjörlega því í stað þess að slá á verðbólguna, varð hún kaupmönnum að tæki til að hækka vörurnar svo um munaði og varð því að úrvalsfæði fyrir spikfeitan verðbólgudrauginn.

Svipað skeði í sumum löndum Suður-Evrópu er þau tóku upp evruna í stað gamla gjaldmiðilsins. Ítalska líran var í lítið meiri metum en íslenska flotkrónan. Sama var að segja um spænska pesetann, hinn portúgalska escuto og grísku drökmuna. Um leið og evran leysti gömlu myntina af hólmi var breytingin nýtt af kaupmönnum til að hækka vörur og þjónustu umtalsvert auk þess sem þessi breyting jafnaði talsvert verðlagið í þeim ríkjum sem tóku upp evruna.

Nú eru Neytendasamtökin og fleiri farin að reka fræðsluáróður vegna ótta við að lækkunin á matarskattinum sem á að koma til framkvæmda rétt fyrir kosningar í vor, skili sér ekki til neytenda vegna þess að kaupmenn reyni að draga úr þeim verðlækkunum sem lækkun matarskattsins ætti að leiða af sér.

Ónefndur lesandi gerði athugasemdir við vilja minn til evruvæðingar Íslands og benti á að Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir væru í dag andsnúnir evrunni. Þetta er eðlilegt í ljósi þess hvernig skipti á gjaldmiðli hafa verið nýtt til hækkunar á verði á vörum og þjónustu. Ég hefi reyndar ekki séð neitt um þetta frá Frakklandi eða Ítalíu, en fyrir Þjóðverjana hefur verðlagið í ríkjunum umhverfis stórhækkað og hefur nálgast verulega verðlagið í Þýskalandi. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við þessa neikvæðni. Það þarf að yfirvinna marga erfiðleika sem slíkum breytingum eru samfara, auk þess sem íhaldssemin og traust til eigin gjaldmiðils er enn ríkjandi.

Það er hinsvegar viðbúið að áhrifin verði þveröfug á Íslandi við upptöku evrunnar. Út frá því að Íslendingar gera sér grein fyrir verðlagi á milli hinna ýmsu Evrópulanda með sama gjaldmiðli, mun verðlag á Íslandi leitast við að nálgast verðlagið í öðrum Evrópulöndum og því lækka.

Ég var á fundi í Tórínó á Ítalíu í nóvember síðastliðnum. Þegar fundarhöldum lauk, skrapp ég í búðarferð ásamt vinafólki mínu frá Austurríki. Með því að bæði Austurríki og Ítalía eru með evrur, var létt verk og löðurmannlegt fyrir vinafólk mitt að gera samanburð á verðlaginu í Vínarborg annars vegar og Tórínó hinsvegar og þurfti engar reiknimaskínur til þess að reikna út gengið og afföll við að skipta schillingum í lírur.

-----oOo-----

Enn eitt er vert að nefna áður en evruspjalli lýkur að sinni. Er fólk nokkuð búið að gleyma hvernig það var að ferðast um Evrópu áður en evran kom til sögunnar? Ef fólk hefur gleymt þessu, er einfaldast að skreppa eina ferð til Norðurlandanna, norskar krónur í Noregi, sænskar krónur í Svíþjóð, danskar krónur í Danmörku og evrur í Finnlandi. Má ég þá heldur biðja um evrur allsstaðar, sleppa því að vera með ótal tegundir smáklinks í vösunum og seðlaveski með ótal hólfum fyrir hina ýmsu gjaldmiðla.

-----oOo-----

Loks mun ég alveg sofa róleg, verði Seðlabanki Íslands lagður niður og Davíð settur á atvinnuleysisbætur.


0 ummæli:







Skrifa ummæli