fimmtudagur, janúar 25, 2007

25. janúar 2007 – Athyglissýki á Moggabloggi!

Það upphófst mikil spenna hjá mér á miðvikudagsmorguninn. Ég hafði kíkt á Moggabloggið mitt rétt um klukkan tíu um morguninn og höfðu þá tæplega 200 gestir heimsótt það frá miðnætti. Ég fór svo og leit á nokkur velvalin blogg áður en ég fór til baka inn á mína síðu og hafði gestunum þá fjölgað um rúmlega hundrað.

“Ha, gat þetta verið?” Ég fann hvernig athyglissýkin blossaði upp í mér, en varð frá að hverfa um stund vegna verkefna á vaktinni. Er ég leit á bloggið aftur skömmu síðar hafði annað hundrað bæst við og fór nú ekkert á milli mála, að aðsóknartölurnar bólgnuðu upp eins og púkinn á fjósbitanum.

Það hlaut að finnast skýring á þessum skyndilegu vinsældum og ég fór að leita. Brátt komst ég að því að ég var komin í “Hall of Fame” á Moggabloggi, þ.e. listann yfir tíu vinsæl blogg á forsíðu mbl.is. Ég fann hvernig ég hækkaði um hálfan metra og reigði mig yfir mannfjöldann um leið og heimsóknartölurnar héldu áfram að hækka og ég snerti varla gólfið er ég fór fram í mat. Það var ljóst að athyglissýkin var farin að stíga mér til höfuðs og nálgaðist hættulegt stig um leið og ég fór að fylgjast betur með aðsóknartölunum á blogginu en tölvunum sem ég átti að vakta. Þegar klukkan var að nálgast 16.00 ætlaði ég að athuga hvort ekki væri komið að nýju meti í aðsókn hjá mér, en þá fraus allt, vinsældarlistinn jafnt sem bloggið sjálft. Þegar mér loksins tókst að endurræsa bloggið, voru aðsóknartölurnar horfnar af síðunni og bilunarmerki á vinsældarlista Moggabloggsins.

“Af hverju þurfti þetta að ske núna?” Það var rétt að koma að nýju aðsóknarmeti! Mér féllust alveg hendur. Ég fór inn á aðrar bloggsíður og þar var heimsóknafjöldinn líka horfinn og ég bölvaði Moggabloggi í sand og ösku og taldi víst að nú hefði Morgunblaðið lært hvernig ætti að græða á bloggi eins og þegar 365 miðlar keyptu Blog.central. Að lokum gafst ég upp og slökkti á blogginu og settist niður yfir hundleiðinlegum handboltaleik í sjónvarpinu fremur en að bölva blogginu frekar. Svo þegar vaktinni lauk, fór ég heim og lenti þar í símtali við góða vinkonu sem benti mér á að aðsóknartölurnar væru enn til, en að það þyrfti að sækja þær inn í stjórnborðið. Eitthvað kættist ég við þetta, ekki síst þegar ég sá að ég var komin vel yfir tvö þúsund heimsóknir, en samt, ég vil hafa aðsóknartölurnar á forsíðu bloggsins eins og áður hefur verið!

-----oOo-----

Útvarp Umferðarstofu sá ástæðu til að senda slæmum ökumanni tóninn sem ók langt undir hámarkshraða á miðvikudag í nágrenni Reykjavíkur. Þetta kom mér ekkert á óvart, ekki síst í ljósi þess að tvær systur sem ég þekki, höfðu skroppið út fyrir bæinn og montuðu sig af því að hafa ekið svo varlega að eftir væri tekið sbr. eftirfarandi færslu:

http://gurrihar.blog.is/blog/gurrihar/entry/108116/


0 ummæli:Skrifa ummæli