föstudagur, janúar 12, 2007

12. janúar 2007 – Segir fátt af einum kaninkubloggara

Einn ungur og ágætur kunningi minn, sonur vinafólks míns frá yngri árum og jafnaldri dóttur minnar, er talinn með gáfaðra fólki. Mörgum er enn í fersku minni er hann var í leikskóla um 1980 og blaðamaður kom þangað að taka viðtöl við krakkana fyrir barnablað sem þá var gefið út í Reykjavík, en sem ég er búin að gleyma nafninu á. Krakkarnir veltu mikið fyrir sér hinum ýmsu vandamálum sem koma börnum spánskt fyrir sjónir, en þessi ungi maður fór að ræða þyngdarlögmálið við blaðamanninn, t.d. hversvegna steinar velta niður en ekki upp og annað í þeim dúr.

Þessi ungi maður hefur alla tíð verið pólitískur á vinstri vængnum og hefur ekki kvikað frá stefnu sinni frá því hann lærði að ganga um eins árs aldur. Um svipað leyti eignaðist hann tuskubangsa sem hann kallaði Stalín og ég held að hann hafi farið í sína fyrstu Keflavíkurgöngu þriggja ára gamall og er nú áhrifamaður innan Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs, og Samtaka hernaðarandstæðinga þótt hann kjósi að styðja sambýliskonu sína í framboðsmálum hreyfingarinnar. Hann er auðvitað löngu kominn til vits eins og ofangreint ber með sér og nýlega einnig til ára og búinn með nám í menntaskóla og háskóla og skilar sínu til samfélagsins eins og við flest gerum.

Ungi maðurinn er meðal fyrstu, vinsælustu og áköfustu bloggara Íslands og var orðinn virkur á því sviði þremur árum áður en bloggið var fundið upp að mati Egils Helgasonar, en rétt eins og sumir grasrótarbloggarar, fyrirlítur hann Moggablogg af öllu sínu hjarta. Því hefur hann endað flesta pistla sína að undanförnu með nokkrum velvöldum orðum í garð Moggabloggs. Er ekki laust við að sumir aðdáendur hans hafi lært af kenningum hans og jafnvel tekið þær til sín, þótt vissulega hafi ég iðrast og skipt um skoðun á áramótum.

Nafn mannsins skiptir ekki máli þótt flestir viti hver hann er.

En hér koma nokkur “gullkorn” sem fallið hafa úr tölvu þessa ágæta unga manns:

Megi Mogga-bloggið aldrei þrífast!
Mogga-bloggið sigli í strand!
Megi Moggabloggið lenda undir valtara.
Megi Moggabloggið hreppa tölvuvírus!
Megi Moggabloggið veslast upp af kóleru!
Hvernig væri að rista Moggablogginu blóðörn?
Megi Moggabloggið falla milli skips og bryggju!
Skaupið. Það besta sem ég man eftir! Ójá!
Markmiðssetning fyrir árið: iii) Knésetja helv. Moggabloggið.
Kjöldrögum Moggabloggið.
Ef borgaryfirvöld vilja endilega standa í að útrýma óæskilegum fyrirbærum legg ég til að þau byrji á Moggablogginu.
Nú er leiðindafrost úti. Megi Moggabloggið éta það sem úti frýs.
Nær hefði verið að selja Moggabloggið - og þá í brotajárn.
Enginn ætti að þurfa að þola slíka meðferð - ekki einu sinni Moggabloggið!

Eins og gefur að skilja, er hann ekki talinn með á vinsældarlista Morgunblaðsins. Svo bið ég Morgunblaðið að fyrirgefa mér birtingu þessa orða, en þau segja kannski heilmikið um brenglaða kímnigáfu mína, að hafa gaman af þessum orðum hins unga kunningja míns.

-----oOo-----

Ég tók þátt í stuttri útisamkomu á Lækjartorgi á fimmtudagseftirmiðdaginn á vegum Íslandsdeildar Amnesty International í tilefni af því að fimm ár eru liðin frá opnun fangabúðanna í Guantanamo. Mig langar til að biðja suma samkomugesti afsökunar á að hafa ruglað andlitum saman, en eins og allir vita er ég komin með Alzheimer Light og að auki óvenju léleg að muna andlit.
Mér var þó bent á lítinn leik sem fer fram á vegum Amnesty International og hvet sem flesta friðarsinna til að taka þátt:

http://amnesty.textdriven.com/guantanamo/home/


0 ummæli:Skrifa ummæli