fimmtudagur, janúar 18, 2007

18. janúar 2007 – Af dósaskera á Suðurlandsvegi

Að undanförnu hafa orðið nokkur óhöpp á Suðurlandsvegi þar sem bílar hafa lent á nýja víravirkinu sem mótorhjólamenn kalla dósaskera og er ætlað til að aðskilja akreinarnar frá hvorri annarri. Vegagerðarmenn eru alveg himinlifandi yfir þessu og telja þetta vera merki um að dósaskerarnir skili ætluðu hlutverki sínu sem er það að koma í veg fyrir að bílar lendi framan á bílum sem koma úr gagnstæðri átt. Þetta nægir ekki til að sannfæra mig.

Þessi óhöpp hafa ekki orðið vegna þess að fólk sé að reyna framúrakstur, heldur vegna þess að snjór hleðst upp að dósaskeranum og veldur meiri hálku á veginum. Því er meiri hætta á að bílstjórar missi stjórn á ökutækjum sínum en áður var, ekki síst nú eftir að notkun nagladekkja hefur minnkað umtalsvert. Svo er önnur hætta þessu samfara. Sumsstaðar er vegurinn svo mjór frá dósaskera og út að kantinum að mjög erfitt er að komast framúr ef bílar bila á þessum kafla. Það er í lagi að velta því fyrir sér hvað skeður ef einhver missir stjórn á bílnum sínum á þessum stað, lendir á dósaskeranum og snýst þversum svo að bíllinn verður óökufær á eftir? Hversu margar mínútur munu þá líða uns bilaröðin nær að Rauðavatni eða þá að Hveragerði ef þetta hefur skeð á leiðinni að austan?

Vegamálastjóri hefur auglýst eitthvert graf sem sýnir minnkandi slysalíkur við breytingu Suðurlandsvegar (gildir einnig um Vesturlandsveg) sem sýnir að slysatíðnin mun snarminnka við breytingu í 2+1 veg. Það getur hver sem er teiknað svona graf ef ekkert liggur til grundvallar. Stefnum því að tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar sem allra fyrst. 2+1 vegur verður orðinn úreltur áður en hann verður lagður.

-----oOo-----

Enn af töfum á Hafnarfjarðarvegi á miðvikudagsmorguninn. Það hefur verið rekinn mikill áróður fyrir minni notkun nagladekkja sem er í sjálfu sér ósköp skiljanlegt. Hafnfirðingar og aðrir íbúar byggðanna sunnan Reykjavíkur fengu að kenna á þessu þann morguninn. Hverjir næst? Þurfa gatnamálayfirvöld ekki að sýna ábyrgð og hvetja til notkunar fjórhjóladrifs í stað nagladekkja?


0 ummæli:







Skrifa ummæli