mánudagur, janúar 15, 2007

15. janúar 2007 – Eyðilagður sunnudagur

Ég vaknaði alltof seint á sunnudagsmorguninn, rekin áfram af tveimur emjandi kisum, annarri hungraðri en hinni sem vildi komast út. Mér var litið út um gluggann og glaðvaknaði. Það hafði snjóað heilan helling um nóttina og ég ekki komin á fætur ennþá. Þetta var sko veður fyrir minn vinstrigræna Súbarú á ónegldu og ég sá mig í anda úti að aka á eðalvagninum á sunnudagsmorgni.

Ég dreif mig á fætur, gaf köttunum að éta, rak síðan Hrafnhildi ofurkisu út í garð, sótti málgagnið í póstkassann og kom mér upp aftur til að lesa blaðið með morgunkaffinu áður en ég færi út að aka.

Rétt þegar ég lauk úr kaffibollanum og ætlaði að koma mér í stígvélin, heyrði ég hræðilegt hljóð. Hávaða í traktor. Ég leit út um glugga og sá, ekki bara einn, heldur tvo traktora vera að ryðja snjónum af bílastæðunum og safna í hrauka. Mér féllust hendur. Moka í burtu allri þessari dásemd sem hafði komið af himnum ofan um nóttina. Ég hætti við að fara út.

-----oOo-----

Það blæs ekki byrlega fyrir hetjunum okkar í Halifaxhreppi. Þær spiluðu að vísu á móti Oxford í bikarkeppninni á útivelli og gerðu lélegt jafntefli og munu þurfa að leika annan leik á þriðjudag heima í Halifaxhreppi. En það er annað verra. Rögnvaldur frá Sogni er hættur að spila með hetjunum og búinn að selja sig til einhverra fáránlegra kelta í neðstu kvenfélagsdeild. Þetta gat hann gert okkur, nýbúinn að éta þessa fínu rjómatertu sem honum var færð á 26 ára afmælinu rétt á undan mínu afmæli og skildi ekkert eftir handa mér.

En hvað með það. Rögnvaldur var svo lélegur hvort eð var að við hefðum orðið að setja hann útúr liðinu fyrr en síðar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli