þriðjudagur, janúar 30, 2007

30. janúar 2007 - Svört leðurstígvél

“Hvaða númer notar þú af skóm?” spurði góð vinkona mín síðastliðið haust er ég var stödd hjá henni. Ég sagði henni það í forundran yfir óvæntri spurningunni.
“Fínt, ég á nefnilega ágæt leðurstígvél sem eru fullþröng á mig og datt í hug hvort þú vildir ekki eiga þau, ef þau passa á þig.”

Vinkonan sem er annáluð fyrir smekkvísi í fatavali og snyrtingu, fór nú og sótti svört fóðruð leðurstígvél af sígildu sniði frá finnskum gæðaframleiðanda inn í geymslu og afhenti mér. Og viti menn. Þau smellpössuðu á mig. Ég hafði sjálf tvisvar eignast brún vetrarstígvél frá sama framleiðanda og hafði af þeim góða reynslu, en síðari stígvélin eignaðist ég í lok síðustu aldar. Duga þau enn þótt ég hafi gengið í þeim á hverjum vetri eftir það og get vottað fyrir hverjum sem er um gæði þeirra og endingu.

Daginn eftir þurfti ég að skreppa bæjarleið og af því að ég var í dökkgráum buxum, var tilvalið að fara í nýfengin stígvélin sem pössuðu ágætlega við buxurnar. Þar sem ég var svo á göngu í bænum, fann ég skyndilega hvernig annar sólinn byrjaði að losna undan skónum. Mér tókst að ljúka erindum mínum og komst með herkjum heim án frekari erfiðleika og hékk þá sólinn enn við stígvélin á lýginni einni saman. Fór ég síðan með stígvélin til skósmiðs daginn eftir og lét gera við sólana.

Eftir þetta gekk allt betur. Stígvélin voru þétt að neðan og ég notaði þau talsvert í frostum vetrarins. Fljótlega fór þó eitt atriði að angra mig, en yfirleðrið tók sig til og fór að molna af leggjunum svo sást í fóðrið innanundir. Það sást reyndar ekkert á meðan ég var í buxum utanyfir, en brátt náði molnunin alla leið niður leggina og því fátt annað til ráða en að leggja stígvélunum og halda áfram að nota þau gömlu brúnu sem höfðu staðið vörð um fótaheilsu mína frá því á síðasta ári síðustu aldar.

Ég hefi ekki þorað að spyrja vinkonu mína að því hversu lengi stígvélin höfðu verið inni í skáp hjá henni, en þykist vita að þau hafi birst úr gleymskunni á síðasta ári er hún skipti um húsnæði.

-----oOo-----

Svo er Margrét Sverrisdóttir vafalaust velkomin í Samfylkinguna svo fremi að hún taki ekki Jón Magnússon með sér. Af öðrum pólitískum málum: Ég velti því fyrir mér hvort Ómar og Jón Baldvin ætli sér að stofna þriðja öldungaflokkinn?


0 ummæli:







Skrifa ummæli