þriðjudagur, janúar 30, 2007

30. janúar 2007 - II - Fer þessum ofbeldisleikjum ekki bráðum að ljúka?

Ég er farin að brjóta á hefðbundnum lífsgildum mínum fyrir vinsældir. Ég er hætt að þora að skrifa það sem mér liggur á hjarta til þess að fá fleiri lesendur að síðunni minni, í von um að hækka aðeins á vinsældarlista Moggabloggsins og lenda í náðinni hjá lesendum mínum. Vegna þessa hefi ég ekki skrifað neitt um ofbeldi það sem kallað er handbolti. Nú skal verða breyting þar á.

Enn einn handboltaleikurinn er í dag og vonandi sá síðasti í þetta sinn. Með þessum slagsmálum sem kallaðar eru handbolti er verið að hvetja sárasaklausa íslenska þjóð til að styðja ofbeldi og líkamsmeiðingar auk þess sem alið er á þjóðarrembindi og stuðningi við öfgaflokka sem berjast á móti fólki af öðrum menningarsamfélögum. Þegar mótinu lýkur, eru stórslasaðir handboltamennirnir fluttir heim með brotnar hnéskeljar, tognaða ökkla, slitin liðbönd og sauma hér og þar. Sumir ná sér aldrei aftur og eru nánast örkumla til lífstíðar. Sjálf þekki ég engan handboltmann sem er algjörlega laus við meiðsli til framtíðar (ég þekki mjög fáa).

Við höfum verið æst upp í hatri gegn Áströlum, Túnisbúum, Frökkum, Þjóðverjum, Pólverjum og nú síðast gegn frændum okkar sem héldu í okkur lífinu um aldir með því að losa okkur við illa lyktandi saltfiskinn í skiptum fyrir úrvals maðkað mjöl á spottprís.

Nei, það er löngu kominn tími til að hætta þessum látum, banna handbolta, friðmælast við þessar þjóðir og bjóða þeim í fallegan tangó eða vals. Síðan skulum við bjóða þessum sömu þjóðum að keppa við þær í skák og snóker og krullu og sýna þeim gott fordæmi í ólympískum anda, þ.e. að aðalmálið er ekki að vinna, heldur að vera með.

Sjáið bara fótboltann. Það hefur tekist ljómandi vel að iðka knattspyrnu í ólympískum anda þrátt fyrir þá staðreynd að Ísland hefur nákvæmlega jafnmarga leikmenn inni á vellinum og andstæðingarnir og eru samt í þægilegu hundraðasta sæti á styrkleikalista þjóðanna!

Rétt eins og ég hélt með þjálfaranum með flotta yfirvaraskeggið í leiknum í fyrradag, ætla ég að hafa slökkt á sjónvarpinu í dag og senda Dönum samúðarkveðjur vegna þeirrar smánar, að þurfa að spila á móti þessum slagsmálahundum norðan úr Dumbshafi.

Og hananú!


0 ummæli:







Skrifa ummæli