föstudagur, janúar 05, 2007

5. janúar 2007 – Hvað kostar krónan?

Ég átti þess kost að fylgjast með átökunum um aðild að Evrópusambandinu í Svíþjóð árið 1994. Ég var frá upphafi eindregið á móti Evrópusambandsaðild og sá fát jákvætt við hana. Það var ekki til að auka stuðning minn við Evrópusambandið að hægriflokkarnir voru meðfylgjandi aðild, en vinstriflokkarnir, Miljöpartiet og Vänsterpartiet á móti.

Það dylst engum að það er dýrt að búa á Íslandi. Við erum með himinháa stýrivexti, 14.25%, vörur og þjónusta eru hér dýrari en annarsstaðar og fólk þarf að vinna mun lengur hér til að eiga í sig og á. Það eru vissulega nokkrir kostir líka eins og lágir skattar og lágt orkuverð til húshitunar og lýsingar. En samt.

Mörg stærri fyrirtæki eru að flýja úr landi með starfsemi sína. Vextirnir eru einfaldlega of háir og því eðlilegra að fara þangað sem vextir og vinnuaflskostnaður er lægri. Minni fyrirtæki eru á barmi gjaldþrots, nema því aðeins að þeim verði það unnt að fá erlend lán til starfseminnar svo þeim verði það unnt að svara samkeppninni frá ríkjum Evrópu þar sem vextirnir eru einungis brot af því sem þeir eru á Íslandi. Sífellt fleiri sækja til útlanda til endurfjármögnunar skulda sinna því krónan sem er seld með 14.25% álagi er of dýr til að þau hafi efni á henni. Hvert fyrirtækið á fætur öðru munu færa rekstur sinn yfir í evrur á næstu árum og brátt verður evran orðin almenn viðmiðun í fjármagnslífi okkar. Þá verða fátækari hluti almennings og ríkissjóður ein um að nota krónuna. Ríkari einstaklingar og einkafyrirtækin verða farin eitthvað annað, flest undir verndarvæng Seðlabanka Evrópusambandsins.

Í musterinu á Arnarhóli situr Davíð, lemur hausnum við granítið og neitar að horfast í augu við að brátt mun hann sitja einangraður ásamt lítilli hjörð hirðmanna sinna og þverskallast við að horfast í augu við þá staðreynd að krónan, einn dýrasti gjaldmiðill í heimi er að verða einskis virði. Seðlabanki Íslands er of lítill og nauðsynlegt fyrir Íslendinga að koma sér fyrir á stóru evrópsku markaðssvæði. Einungis þannig er hægt að ná stýrivöxtunum niður í eðlilega hæð. Davíð og félagar munu hamast gegn Evrópusambandinu svo lengi sem unnt er, en tími andstæðinga EU er að renna sitt skeið á enda.

Það má vel vera að andstæðingar evrunnar og Evrópusambandsins muni sigra kosningarnar í vor. En þá munu bíða okkar fjögur mögur ár þar sem Ísland mun þurfa að greiða háar upphæðir fyrir að viðhalda dauðvona gjaldmiðli.

Ég er fyrir löngu síðan búin að skipta um skoðun á Evrópusambandinu og þótti miður er Svíþjóð felldi aðild að myntbandalagi Evrópu í þjóðaratkvæðagreiðslu í september 2003. Ég á þó enn þá von í brjósti að Ísland fari ekki sömu skrykkjóttu leiðina og Svíþjóð og gangi alla leið í Evrópusambandið (EU) og Myntbandalagið (EMU) hið bráðasta og losi sig þannig við hávaxtastefnu Davíðs og félaga.


0 ummæli:Skrifa ummæli