miðvikudagur, janúar 17, 2007

17. janúar 2007 – 2. kafli – “Ökumenn eiga sjálfir þátt....

... í að umferðin teppist” var haft eftir Árna Friðleifssyni varðstjóra hjá lögreglunni í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Þvílík snilld. Ég hefi sjaldan heyrt annan eins sannleika í einni stuttri setningu og legg til að þessu einfalda vandamáli verði þegar í stað eytt með einföldum aðgerðum, t.d. þeim að banna ökumenn. Það, að útrýma ökumönnum með einni reglugerð, mun svo leysa mörg önnur vandamál í leiðinni, engin slys lengur og hægt að leggja öll áform á hilluna um tvöföldun Suðurlandsvegar og göng til Vestmannaeyja.

Í fúlustu alvöru. Eru menn sem koma með svona yfirlýsingar, eins og fréttamaðurinn og lögregluvarðstjórinn, ekki komnir út á hálan ís?

Þegar ég vaknaði í morgun og heyrði fréttirnar af miklum töfum á Reykjanesbraut vegna hálku í einni brekku, kom einhver púki upp í mér og ég hugsaði til þess hve ég ætti það gott að búa í göngufæri frá vinnunni. Engar áhyggjur af bílastæðum eða því að þurfa að skafa af bílnum. Einasti kostnaðurinn við að komast í vinnuna eru góðir skór, góð úlpa og endurskinsmerki sem fást ókeypis í næsta banka.

Það er svo allt önnur saga hvernig ber að leysa umferðarteppurnar sem eru iðulega á Reykjanesbrautinni á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og efni í heilan pistil sem og athugasemdir við væntanlegan tvo+einn veg með dósaskera á milli akreina.


0 ummæli:







Skrifa ummæli