föstudagur, janúar 26, 2007

26. janúar 2007 - Allir í framboð!

Nú er gaman. Það stefnir í að framboðum til alþingis í komandi kosningum fjölgi verulega frá því sem verið hefur. Ekki eru einungis gömlu flokkarnir, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin, grænt framboð sem allir stefna að framboði í öllum kjördæmum, heldur eru allnokkur ný framboð í farvatninu.

Þar ber fyrst að nefna framboð öldunga undir stjórn Arndísar Björnsdóttur, Kristjáns Guðmundssonar og fleiri. Þá kemur framboð fatlaðra öldunga með þeim Arnþóri Helgasyni, Baldri Ágústssyni og enn fleirum. Einnig er rætt um sérframboð Margrétar Sverrisdóttur ef svo illa vill til að hún hrekist úr flokknum. Þar með er málinu ekki lokið. Frjálshyggjufélagið vill komast á þing til að útrýma bákninu sem Davíð og Geir börðust gegn fyrir 30 árum, Ásgeir Hannes Eiríksson vill komast á þing til að berjast gegn innflytjendum, Kristilegi lýðræðisflokkurinn vill komast á þing til að berjast gegn öllum sem ekki lúta þeirra sérleyfi á guðstrúnni. Umhverfisverndarsinnar sem ekki vilja styðja vinstrigræna, vilja senda Ómar Ragnarsson á þing til að berjast gegn Kárahnjúkavirkjun. Það er þó óvíst hvort Ómar Ragnarsson vilji fara á þing. Loks má ekki gleyma lélegu gengi kvenna í prófkjörum að undanförnu sem gefur tilefni til að endurvekja gömul kvennaframboð.

Sjálf legg ég til að gamli Framboðsflokkurinn verði endurlífgaður. Einn ágætur frambjóðandi þess ágæta flokks frá 1971 situr reyndar á þingi nú þegar, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og er þingi og þjóð til mikils sóma. Ég á ekki von á því að hún vilji skipta fyrir nýtt framboð, en miðað við allan þann fjölda fólks sem virðist villuráfandi í pólitíkinni þessar vikurnar, ætti ekki að vera hörgull á skemmtilegu fólki til að fylla einn eða tvo framboðslista, jafnvel fleiri.


0 ummæli:







Skrifa ummæli