þriðjudagur, janúar 23, 2007

24. janúar 2007 - Að senda fólk í blóðprufu

Það mun hafa tíðkast hjá Bechtel á Reyðarfirði að ákveðinn hópur starfsmanna samkvæmt slembiúrtaki er tekinn í læknisskoðun og blóðprufu á hverjum vinnudegi. Ef einhver reynist hafa drukkið einum öl of mikið deginum áður, er hann umsvifalaust sendur heim og við ítrekað brot, rekinn úr vinnu. Fleiri stórfyrirtæki hafa sömuleiðis boðað hertar reglur í svipuðum dúr til að hindra að fólk mæti ölvað, með timburmenn eða jafnvel í annarlegu ástandi vegna vímuefnanotkunar til vinnu.

Um leið og hér er komin dálítið varasöm þróun, get ég ekki staðið upp og mótmælt hástöfum. Rétt eins og bílstjóri með timburmenn er hættulegri en sá sem er allsgáður, er starfsmaður á lyftara ekki síður hættulegur. Þó er sá munur á, að vinnufélagar eiga auðveldara með að fylgjast með félaganum og stoppa hann af, en þúsundir ökumanna sem eru einir í hverjum bíl á leið til vinnu að fylgjast með þessum eina sem tók í nösina kvöldið áður.

Ölvaður framkvæmdastjóri stórfyrirtækis getur valdið margföldum skaða á við þann sem ók lyftaranum. Þar sem þeir velta milljónum og milljörðum á hverjum degi, geta minnstu fjárfestingarmistök í ölæði kostað gífurlegar upphæðir og jafnvel komið einu fyrirtæki á hausinn. Á Alþingi sitja 63 þingmenn og kljást um þjóðarauðinn, einstöku hugsanlega undir áhrifum áfengis eða lyfja án þess að ég vilji fullyrða neitt um það.

Ef það er látið afskiptalaust að Bechtel og Alcan sendi sitt starfsfólk í blóðprufu í vinnutímanum, er þá ekki eðlilegt að ein lög verði látin ná yfir alla og allir verði sendir í blóðprufu eftir slembiúrtaki, ekki bara þeir sem eru staðsettir lægst í þjóðfélagsstiganum, heldur einnig forstjórar, alþingismenn og ráðherrar?


0 ummæli:







Skrifa ummæli