þriðjudagur, janúar 23, 2007

23. janúar 2007 - Taugaveiklaðir nágrannar

Þegar ég bjó á sjöttu hæð í Hólunum hafði ég fagurt útsýni til norðurs. Öll Esjan blasti við mér og nær var Árbæjarhverfið en næst voru svo nokkur raðhús. Sökum hæðarinnar sást fátt fólk í návígi nema þá að horft væri niður á kollana sem siluðust meðfram húsinu. Síðar flutti ég í eitt þeirra húsa í Árbæjarhverfinu sem blöstu við mér ofan af sjöttu hæð í Hólahverfinu.

Nú hefi ég ekkert útsýni til Esjunnar lengur. Af stóru svölunum sé ég upp í Hólahverfi sem og skógivaxna hlíðina ofan við Árbæjarlónið, en ef ég horfi út í garðinn sé ég yfir í svefnherbergisálmurnar á blokkunum vestan við mig. Horfi ég á móti út um gluggana á svefnherbergjunum og yfir bílastæðin þar sem alltaf virðist líf og fjör, sé ég einnig inn í stofurnar á blokkunum austan við mig.

Á mánudagskvöldið var ekkert spennandi í sjónvarpinu og ég fór inn í stóra herbergi og fór að góna út um gluggann. Það var óvenjumikil kyrrð á bílastæðinu og umferðin í Hraunbænum óvenju lítil. Þegar ég horfði yfir á blokkirnar handan bílastæðanna veitti ég því athygli, að í þeim stofum þar sem ekki var dregið fyrir glugga, voru fullorðnir karlmenn spígsporandi um stofur eins og væru þeir með njálg eða eitthvað enn verra. Þetta var ekki á einum stað, heldur taldi ég iðandi fólk í fimm stofum. Þetta þótti mér skrýtið. Það hlaut að vera eitthvað yfirmáta spennandi í sjónvarpinu.

Ég kveikti á sjónvarpinu. Þar sem ég er bara með aðgang að RÚV, Sirkus og Skjá 1, var ég fljót að sjá að það var ekkert spennandi á þeim rásum, einhver íþróttaleikur á RÚV og einhverjir framhaldsþættir á hinum rásunum. Jæja það virtist sem fólk væri að horfa á einhverja yfirmáta spennandi hryllingsmynd eða endursýndan Kompás á Stöð 2 og ég gat slökkt aftur á sjónvarpinu með góðri samvisku.

En einkennilega fannst mér samt þessi taugaveiklun sem virtist vera í gangi!

-----oOo-----

Svo er ástæðulaust að óska Eyjamönnum til hamingju með daginn!


0 ummæli:







Skrifa ummæli