laugardagur, janúar 20, 2007

20. janúar 2007 – Eru hvalveiðar meira virði en Írakar?

Þegar ég heyrði frétt í Ríkisútvarpinu þess efnis að Bretar ætluðu í alþjóðasamstarf gegn hvalveiðum Íslendinga undir stjórn Tony Blair, datt mér strax í hug að þarna hefði Tony Blair tekið hvalina framyfir mennina. Hann á í blóðugri styrjöld austur í Írak þar sem verið er að myrða innfædda á hverjum degi og hann skammast sín ekki einu sinni fyrir hegðun sína. Rétt eins og Bush vinur hans og samstarfsmaður, leggur hann allt í sölurnar fyrir olíuna. Þessi maður er svo gjörsamlega rúinn trausti víða um heim að orð hans um hvali þykja hjóm eitt. Verra þykir mér að sjá Sör David Attenborough leggja nafn sitt við þennan skrípaleik.

Til að gera herferðina að enn meiri skrípaleik, legg ég til að hvalveiðisinnar sendi þegar í stað fulltrúa sína vestur til Washington með mynd af hval í farteskinu svo Bush komist að því hvernig langreiðar líta út. Fái hann síðan til að undirrita stuðningsyfirlýsingu við baráttu Blair gegn hvalveiðum og dreifi þessari yfirlýsingu um alla heimsbyggðina.

Þetta ætti að nægja til að rústa þessari baráttu!

-----oOo-----

Svo fær Laddi hamingjuóskir með stórafmælið :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli