föstudagur, janúar 05, 2007

6. janúar 2007 – Enn af Evrópusambandinu.

Orðum mínum frá föstudegi hefur verið harðlega mótmælt af aðeins einni manneskju. Það er eðlilegt því ég hefi verið mjög svo iðin að undanförnu að fæla lesendur í burtu, ekki einungis með stuðningi mínum við Kárahnjúkavirkjun, heldur og andstöðunni við Moggablogg, Áramótahörmungina sem kölluð var skaup og nú síðast stuðningi við Evrópusambandið. Því er eðlilegt að einungis mínir dyggustu lesendur nenni enn að lesa bloggið mitt þótt ég hefi reynt að dreifa boðskap mínum sem víðast.

Næstsíðasta lesönd mín sendi mér ágæta athugasemd við pistil gærdagsins þar sem hún óttaðist að Spánverjar ryksuguðu síðustu þorskana úr miðunum okkar.

Á hátíðarstundum er mér sagt að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Skelfing er sú þjóð lítil sem samanstendur af örfáum útgerðarmönnum. Ætli hún nái fólksfjöldanum í Vatikaninu? Í dag er staðan sú að óveiddur fiskurinn í sjónum er orðinn eign örfárra útgerðarmanna og þeir stærstu þegar á hraðri útleið til Evrópusambandsins. Síðast föstudaginn 5. janúar 2007 var lesin frétt í útvarpinu þess efnis að stærsta útgerðarfélag landsins, Grandi hf, ætli að flagga flaggskipi sínu, Engey RE-1, út til Hollands, en Holland er að sjálfsögðu í Evrópusambandinu. Áhöfninni sem er að stórum hluta frá Akranesi verður sagt upp að mestu leyti. Næststærsta útgerðarfélagið er sömuleiðis með umfangsmikinn rekstur í Englandi og Þýskalandi. Þegar íslensk lög meina erlendum skipum að veiða fiskinn hér heima, “kaupa” þessi útgerðarfélög skip með skilarétti til að veiða fiskinn og skila skipunum svo aftur. Þeir hafa ekki einu sinni fyrir því að skrá íslenskar áhafnir á skipin. Þetta færist stöðugt í vöxt og fjöldi erlendra áhafnarmeðlima um borð í íslenskum skipum eykst sömuleiðis stöðugt.

Þessi félög eru þegar farin að skrá hluta bókhalds síns í evrum og það mun verða áframhald á slíku. Þá hefur hagnaður ýmissa útgerðarfyrirtækja þegar verið fluttur yfir í annan rekstur, bílainnflutning, fótboltafélög, fjármálafyrirtæki og þess háttar og þetta ýtir enn á að skrá allan reksturinn í evrum. Helsta veiðarfærafyrirtækið er löngu komið með stærstan hluta reksturs síns til Litháen sem nú er í Evrópusambandinu, þótt það hafi enn ekki fengið aðgang að Myntbandalagi Evrópu

Þegar fyrsta álfyrirtækið var byggt á Íslandi fyrir um fjórum áratugum töluðu andstæðingar stóriðjunnar um erlenda stóriðju og vildu efla þjóðlega atvinnuvegi, sjávarútveg og landbúnað. Stóriðjusinnar töluðu á móti um að andstæðingar stóriðju vildu hafa öll eggin í sömu körfunni. Nú hefur umræðan snúist við, sjávarútvegurinn á fallanda fæti og stóriðjan að verða ein eftir sem einasta eggið í körfunni.

Sjálfri er mér nokk sama hvort það er Pólverji eða Spánverji sem veiðir síðasta þorskinn úr hafinu umhverfis Ísland og þorskurinn verður senn ekki lengur það afl sem heldur Íslandi frá aðild að Evrópusambandinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli