mánudagur, janúar 22, 2007

22. janúar 2007 – Góða veislu gjöra skal

Ég fór að velta fyrir mér hvernig ég gæti komist á gestalistann hjá þessum háu herrum sem halda veglega upp á afmælið sitt og láta Elton Djonn og Bjögga hita upp fyrir Bubba Mortens. Það verður að hafa í huga að ekki er ráð nema í tíma sé tekið og því eins gott að undirbúa sig strax og byrja á að hanna samkvæmiskjólinn. Ég lenti að vísu í afmæli hjá eiginkonu eins útibússtjóra skömmu fyrir jól, en þar voru engar stjórstjörnur að afmælisbarninu einu frátöldu. Þegar háu herrarnir eru farnir að reyna að toppa hvern annan í stórstjörnum, þykist ég vita að Rolling Stones spili fyrir Hreiðar Má og Sigurð Einarsson og Roger Waters verði látinn syngja afmælissöng fyrir Björgólf Thor. Gamli Björgólfur verður að láta sér nægja Pavarotti, nema auðvitað að hann fái Fílharmoníuhljómsveit Berlínar til að flytja sér afmælissöng. En samt, mig langar í boðsmiða!

Ég á að vísu enga peninga til að kaupa þeim dýrar afmælisgjafir, til þess eru þjónustugjöldin og yfirfráttarvextirnir of háir, en ég get hugsanlega prentað út mynd af sjálfri mér í prentaranum mínum, áritað hana og sett í ramma sem kostar lítið í Júróprís. Eitthvað kostar svo samkvæmiskjóllinn því vart get ég verið eins og stafkerling til fara í fínu afmælisboðinu.

Mikilvægast af öllu er þó að vita hvenær fólkið á afmæli svo ég geti byrjað að undirbúa mig undir samkvæmið. Ég komst því að eftirtöldum afmælisdögum:

Ólafur Ólafsson, Samskip .... 23.01.1957
Hreiðar Már Sigurðsson, Kaupþing .... 19.11.1970
Sigurður Einarsson Kaupþing .... 19.09.1960
Jón Ásgeir Jóhannesson Baugur .... 27.01.1968
Björgólfur Thor Björgólfsson, Samson .... 19.03.1967
Björgólfur Guðmundsson, Samson .... 02.01.1941
Magnús Kristinsson, Toyota ofl .... 03.12.1950
Einar Sigurðsson, TM ofl .... 23.08.1977
Hannes Smárason, FL grúpp .... 25.11.1967
Jóhannes Jónsson, Bónus .... 31.08.1940
Róbert Wessmann, Actavis .... 04.10.1969
Magnús Þorsteinsson, Eimskip .... 06.12.1961
Eggert Magnússon, WestHam .... 20.02.1947

Ég sé að Eggert Magnússon og Björgólfur Thor eru næstir á dagskrá. Ég er strax farin að hlakka til. Hvernig skyldu þeir slá Ólafi Ólafssyni við í veglegheitunum?

Hafi ég gleymt að setja einhverja stórgróssera á listann, verða þeir bara að láta mig vita hvenær þeir eiga afmæli svo ég geti bætt þeim við. Sjálf hefi ég engin kynni af þessum mönnum enn sem komið er (öðrum en Magnúsi Kristinssyni og Eggert Magnússyni) og því gaman að kynnast þeim aðeins betur með glas af góðu eðalvíni í hönd. Reyndar skuldar Maggi mér flösku sem hann lofaði mér í eldgamla daga og bíð ég enn eftir gömlu maltwhiský frá honum sem verður að sjálfsögðu að vera eldra en loforðið, eða nærri 30 ára gamalt. (slef,slef).


0 ummæli:







Skrifa ummæli