miðvikudagur, janúar 17, 2007

17. janúar 2007 - Vandamál daglegs lífs

Þriðjudagurinn byrjaði vel. Er ég kom á vaktina var gott frost og veðurfræðingarnir hættir við hlýindin sem hefðu þýtt minnkandi sölu á heitu vatni. Því leit vaktin vel út í byrjun þó að því undanskildu að ekki tókst að ná fullum afköstum frá Nesjavöllum. Það var ráðist í lagfæringar á aflofturunum eystra skömmu fyrir hádegið sem þýddi enn minnkuð afköst rétt á meðan á lagfæringunum stóð. Sem ábyrgum vélfræðing sæmir, nagaði ég á mér neglurnar á meðan.

Þetta fór allt vel og þegar leið á eftirmiðdaginn, var hægt að sjá augnabliksgildin í sölu á heitu vatni fara vel yfir 14000 tonn á klukkutímann eða nærri 4000 sekúndulítra og hefur þá klingt vel í kassanum hjá eigendum Orkuveitunnar. Sjálf var ég eins og útspítt hundskinn alla vaktina, algjörlega að ástæðulausu, enda gott kerfi sem vaktað er, og ég því dauðþreytt þegar labbað var heim eftir vaktina. Þeir spá meira frosti á miðvikudag.

Ég settist við tölvuna þegar heim var komið og ætlaði að skrifa færslu dagsins sem ég var með í kollinum, en þá heimtaði Hrafnhildur ofurkisa að ég sleppti sér út og ég fór með henni niður og sleppti henni út í garð þótt köttum væri vart út sigandi. Fór svo upp aftur og sjá. Tárhildur vælukisa hafði ákveðið að fara í tölvuleik á meðan ég var í burtu. Það tók mig klukkutíma að endurstilla tölvuna eftir afrek kisunnar og gáfupistillinn sem ég hafði ætlað að skrifa löngu farinn veg allrar veraldar. Því er pistill dagsins óvenju snubbóttur og leiðinlegur í dag.

-----oOo-----

Loks fá Davíð (gettu hver) og Eimskip hamingjuóskir með afmælið í dag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli