þriðjudagur, janúar 09, 2007

9. janúar 2007 – Á ég að gæta bróður míns?

Á þeim tíma sem ég bjó í Svíþjóð skeði það eitt sinn, að maður einn mætti ekki í vinnuna sína. Þetta var maður um fimmtugt og hann bjó ekki fjarri vinnustað mínum í vesturhluta Stokkhólms og því vakti mál hans meiri athygli okkar en ella. Samkvæmt fjölmiðlum var maðurinn ekki talinn neinn óreglumaður, en hafði hinsvegar oft verið frá vinnu vegna skammtímaveikinda.

Það var reynt að hringja í manninn, en enginn svaraði. Eftir margítrekaðar tilraunir til að ná sambandi við manninn, gafst atvinnurekandinn upp og sendi honum uppsagnarbréf án þess að maðurinn svaraði neinu til baka. Maðurinn hætti að greiða húsaleiguna sína og eftir nokkurn tíma var honum sagt upp húsnæðinu. Svo leið og beið og uppsögnin á leigunni fór sína leið í gegnum kerfið og til fógeta.

Eftir að fógetaúrskurður var kominn, var kölluð til lögregla og mannskapur til að bera manninn út. Hann svaraði ekki dyrabjöllunni og því var kallaður til lásasmiður sem boraði út lásinn og fógetinn komst inn ásamt aðstoðarfólki sínu. Þegar þeir höfði vaðið yfir mikinn bunka af óopnuðum pósti fyrir innan dyrnar, blasti við þeim lík íbúans og hafði hann þá verið látinn í fjórtán mánuði.

Mál mannsins þótti ákaflega sorglegt, ekki síst í ljósi þess að enginn virtist hafa saknað hans nema yfirmaður hans í vinnunni sem svaraði með því að senda uppsagnarbréf til mannsins. Mál hans gleymdist þó fljótt þegar fréttist af gamalli konu í Farsta, í suðurhluta Stokkhólms. Hún fékk eftirlaunin sín inn á bankareikning og þar sem hún var í greiðsluþjónustu, voru reikningarnir hennar dregnir sjálfvirkt af eftirlaunum hennar.

Einhverju sinni þurfti pípulagningarmaður að komast inn í íbúðina hennar vegna vandræða á ofnakerfi blokkarinnar þar sem hún bjó. Þar sem hún svaraði ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, þurfti að kalla til lögreglu og lásasmið svo hægt yrði að komast inn, enda þýðingarlaust að senda henni bréf, því bréfabunkinn fyrir innan dyrnar náði upp að póstlúgunni. Samkvæmt elsta óopnaða bréfinu sem fannst innan við dyrnar hjá konunni, hafði hún verið dáin í fimm ár.

Á Íslandi létu nágrannarnir vita, þegar þeir hættu að verða varir við ferðir gömlu konunnar.

Ég spyr: Hefði nokkurs konar vinalínusamband eða Dead Alarm kerfi getað bjargað lífi hennar? Hitt finnst mér skipta minna máli, hversu lengi hún lá dáin í íbúðinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli