sunnudagur, janúar 28, 2007

28. janúar 2007 – “Vona að ég hafi iðrast nóg,”

var haft eftir Árna Johnsen á forsíðu Blaðsins í gær laugardag. Ég segi á móti, takk Árni min, þetta er það besta vopn sem þú gast gefið okkur pólitískum andstæðingum þínum, því fátt sýnir betur að þú hefur enn ekki lært að skammast þín!

Iðrunin er ekki keypt í Tangabúðinni eða Bónus og hvorki í magni né þyngd. Hún er ekki einu sinni til sölu þótt sumir virðist halda það. Hún er fólgin í auðmýkt, kærleika og bættu líferni, ekki í tæknilegum mistökum. Því verður að líta svo á að iðrunin hafi enn ekki náð inn að hjarta Árna Johnsen. Í framhaldinu má spyrja sig þess hvaða erindi þessi maður á inn á Alþingi Íslendinga með slíkan hugsunarhátt og fortíð sem raun ber vitni?

-----oOo-----

Á blaðsíðu 40 í sama blaði og viðtalið er við Árna Johnsen, er góð grein og þörf um vopnasölu til þróunarlandanna með myndum af hermönnum að skjóta úr byssum. Það sem sló mig við lestur þessarar greinar var ekki vopnasalan sem slík, heldur auglýsing frá Mjólkursamsölunni mitt í textanum um vopnasöluna og sem auglýsir LGG+ sem streituvörn í skólanum. Hvaða skilaboð er verið að senda út til skólafólks með þessari auglýsingu mitt í grein um vopnasölu?

-----oOo-----

Enn kemur Moggabloggið mér á óvart, því rétt eins og íslenska handboltalandsliðinu tókst að vinna Slóveníu í einhverjum leik (strákarnir mínir spila ekki með handboltalandsliðinu), þá ruku aðsóknartölurnar upp að nýju á laugardag eftir að hafa dottið niður úr öllu valdi á föstudag, sbr laugardagsfærsluna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli