mánudagur, janúar 29, 2007

29. janúar 2007 - II - Peningar fyrir markaskor

Sú frétt barst okkur aumum landslýð í kvöld að Eimskip og Magnús Þorsteinsson ætla að greiða milljón krónur til velferðarmála fyrir hvert mark sem Eiður Smári Guðjónsen skorar fyrir lið sitt sem er staðsett í Barþelóna suður á Spáni. Ekki finnst mér þetta mjög veglegt þegar haft er í huga að umræddur Eiður Smári er bara varamaður í liði sínu. Þetta er bara algjör nánasarháttur þegar haft er í huga hve Magnús Þorsteinsson á miklu fleiri milljónir en Ólafur Ólafsson.

Nær væri að greiða milljónina fyrir hvert það mark sem markaskorarinn Stuart Rudd hjá spútnikliðinu Sameiningu Mannshestahrepps (United of Manchester) skorar, en hann hefur þegar skorað 27 mörk í þeim 25 leikjum sem liðið hefur leikið í efstu Vestfjarðadeildinni í Englandi og á félagið enn eftir 17 leiki fyrir vorið.

Ef þetta þykir ekki nógu þjóðlegt, má auðvitað beina peningunum til félaga innanlands og veit ég að Björgólfur mun ekki hafa neitt á móti slíkum stuðningi við KR. Ekki ég heldur.


0 ummæli:Skrifa ummæli