sunnudagur, mars 09, 2008

10. mars 2008 - Enn fjölgar ættingjunum, lífs sem liðnum

Þar sem ég álpaðist á Bókamarkaðinn á dögunum, greip ég með mér ævisögu Péturs sjómanns Sigurðssonar þótt ekki hefði ég ætlað að kaupa hana, enda hafði ég takmarkað álit á ritstíl höfundarins. Á móti kom að bókin var ódýr og ég hafði kynnst Pétri lítillega á skólaárum mínum þar sem við þáverandi nemendur sjómannaskólanna nýttum okkur Pétur til sóknar innan kerfisins til hagsbóta fyrir nemendur skólanna.

Innihald bókarinnar olli mér vissum vonbrigðum þar sem hún bar þess merki að bæði höfundur og viðfangsefni voru komin að fótum fram og létust báðir skömmu eftir að bókin var rituð um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Þá fékk ég á tilfinninguna að bókin væri fremur rituð sem lofgjörð um Sjálfstæðisflokkinn en ævisaga stórbrotins persónuleika til sjós og lands.

Er ég hóf að lesa kaflann um ættir Péturs fannst mér ég þekkja lýsinguna og gat auðveldlega leiðrétt rangfærslur sem þar komu fram. Það var einfaldlega verið að lýsa bróður langömmu minnar og föður þeirra.

Jón Jónsson hét langafi Péturs fæddur 1842 í Dældarkoti (nú Borgarlandi) í Helgafellssveit og náði hann 102 ára aldri, lést 1944. Faðir hans var Jón Jónsson fæddur 4. mars 1800 á Skipalóni í Eyjafirði, en í bókinni er hann sagður vera Björnsson auk þess sem rangfærslur eru um móðerni Jóns yngri í bókinni. Það ber þó að ítreka veikindi höfundar og Péturs er bókin var rituð.

Sjálf var ég lengi í miklum vandræðum að finna deili á Jóni frá Skipalóni, enda sagður fæddur í rangri sókn í manntali 1845, en tókst það að lokum með góðri hjálp Sigurðar Kristjánssonar starfsmanns Íslendingabókar. Þá hefi ég ekki hirt um að rekja niðja Jóns og hefi látið aðra ættingja ganga fyrir. Það er þó af nógu að taka, en Jón átti átta börn með fyrri eiginkonunni, þá langömmu mína með vinnukonu sinni og loks þrettán börn í síðara hjónabandi. Einnig átti tvíburabróðir hans, Dagur Jónsson fjölda niðja þar sem hann bjó norður í Fljótum í Skagafirði. Þá ólust systkinin, Jón yngri og Sesselja, upp í sitthvoru lagi og því var aldrei nokkur samgangur á milli langömmu minnar annarra systkina hennar, né niðja þeirra.

Þetta breytir engu um að eftir lestur bókarinnar um Pétur sjómann, erum við fjórmenningar, en hann og Hörður frændi Torfason þá þremenningar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli