fimmtudagur, mars 13, 2008

13. mars 2008 - Að búa ein er frelsi!

Eitthvað á þessa leið má þýða heitið á grein sem ég las í Dagens nyheter á dögunum og var hún í greinaflokki með um fólk sem býr eitt, án maka eða barna. Það er full ástæða til að skoða þetta mál í landi þar sem þar sem tvær milljónir búa einar eða nærri fjórðungur sænsku þjóðarinnar. Ekki veit ég tölurnar fyrir Ísland, en ljóst er að hér á landi býr fjölmargt fólk eitt og sér og kærir sig kannski ekkert um að deila íbúðinni með öðrum.

Ef frá er talinn tæpur áratugur á meðan ég var í hjónabandi frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar, hefi ég búið ein allt frá fimmtán ára aldri. Í dag finnst mér önnur tegund búsetu nánast sem óhugsandi. Ég vil þó ekki útiloka neitt, en ég er mjög sátt við þetta búsetuform.

Það kemur fyrir þegar ég neyðist til að henda mat sem ekki nýttist að ég bölva þessu annars ágæta fyrirkomulagi. Það er hundfúlt að þurfa að henda helmingnum af brauðinu vegna þess eins að ég gat ekki keypt það í minni pakkningum eða þá að ég nenni ekki að laga sósuna fyrir mig eina. Einnig laumast ég til að kaupa eitthvað drasl sem nóg er að henda í örbylgjuofninn og hita. Fyrir bragðið verður heimiliskostnaðurinn miklu hærri en ella þyrfti að vera og það er dýrt að búa ein í 84 fermetrum. Þá verður mér gjarnan hugsað til Svíþjóðar þar sem útreiknuð stærð íbúðarhúsnæðis á hvern Svía var um 45 fermetrar árið 1990. Ekki veit ég hvernig það er í dag né hver stærðin er hér á Íslandi.

Þrátt fyrir ofangreinda ágalla bý ég við frelsi heima hjá mér. Ef ég nenni ekki að skúra gólfin heima hjá mér, sleppi ég því bara. Ekki þarf ég að nöldra yfir neinum sem skilur sokkana sína eftir á miðju gólfinu þar sem einustu sokkarnir sem eru skildir eftir á gólfinu heima hjá mér eru mínir eigin sokkar. Enginn rekur mig í rúmið á ákveðnum tíma. Ég elda mér mat þegar ég verð svöng og hlusta á tónlist á nóttunni. Nágrannarnir á neðri hæðinni hafa enn ekki kvartað.

Einustu verurnar sem kvarta yfir mér eru kisurnar mínar. Þær láta mig vita ef ég er ekki nógu dugleg að færa þeim matinn sinn eða að hleypa þeim út og þær hika ekki við að mótmæla á sinn hátt ef ég er ekki nógu dugleg að hreinsa kassann þeirra. Um leið finnst þeim ágætt að sofa einar í rúminu mínu áður en ég rek þær úr því þegar ég fer sjálf að sofa.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=531&a=750550


0 ummæli:







Skrifa ummæli