laugardagur, mars 15, 2008

15. mars 2008 – Orsakir lokunar hóruhúsa í hafnarborgum Evrópu.

Þegar ég byrjaði til sjós á sjöunda áratugnum voru skemmtihverfi mjög áberandi í hinum ýmsu hafnarborgum Evrópu og víðar. Þegar fór að líða á áttunda áratuginn fór þeim ört fækkandi, stundum með aðstoð yfirvalda, en víðast þó vegna þess að eftirspurnin dróst saman og ekki lengur grundvöllur fyrir skemmtistöðunum. Nú síðast bárust fréttir af lokun þekkts hóruhúss í Hamborg sem staðið hafði allt af sér í 60 ár.

Eigandi hóruhússins Hótel Luxor eða Eros Center í Hamborg hélt því fram að þetta væri vegna aukinnar klámvæðingar á netinu. Ég er ósammála henni sem og einstöku aðilum sem vitna í þessi orð sem einhvers stóra sannleiks um niðurlægingu skemmtihverfanna.

Ég man eftir blómlegu skemmtihverfi í Rotterdam þar sem mikið var um vændi og klám fyrir og um 1970. Hverfið hét Katendrecht (af sumum ranglega kallað Chinatown) og þar var hægt að sækjast í allar þær lystisemdir sem einmana farmenn þurftu á að halda meðan stoppað var í höfn. Um 1980 var hverfið horfið sem slíkt, búið að rífa sum húsin og komin leguhöfn fyrir lektur í staðinn. Slík urðu örlög margra slíkra hverfa og ekkert kom í staðinn.

Á árunum fyrir 1970 var mikið um stór og mikil skip sem fluttu vörur í lausu, í sekkjum eða á brettum, áhafnirnar voru fjölmennar og margra daga stopp í hverri höfn. Svo fann einhver upp gáma. Allt í einu gjörbreyttist allt umhverfið. Mestallir flutningar urðu staðlaðir í 20 og 40 fet og hraðinn jókst svo um munaði. Það þurfti ekki lengur 30-40 manns á hvert skip og skipin stoppuðu í nokkra klukkutíma í stað margra daga áður. Menn hættu að hafa tíma til að skreppa í land til að skemmta sér.

Í dag eru stærstu skipin sem koma til hafnar með einungis örfáa í áhöfn. Þó lesta þau á við 30 skip á árum áður og kannski enn fleiri. Áhafnirnar eru hættar að hafa tíma til að kíkja í bæinn. Gott dæmi er nýja raðsmíðin fyrir Mærsk, skip sem sigla á milli Evrópu og Austur-Asíu í tveggja mánaða túrum. Þessi skip eru skráð geta borið 11 þúsund gámaeiningar en bera í reynd allt að 15 þúsund gámaeiningum. Það þarf einungis 13 menn til að sigla þessum skipum.

Hvernig ætla vesalings stelpurnar í vændisbransanum að lifa af slík umskipti? Það er einfaldlega vonlaust. Tæknin býður ekki upp á neitt slíkt. Það var ekki netklámið sem kálaði Eros Center í Hamborg. Það voru gámar.


0 ummæli:Skrifa ummæli