mánudagur, mars 31, 2008

31. mars 2008 - Eins og kálfur að voriUm leið og ég opnaði dyrnar inn til mín þegar ég kom heim eftir vinnu á sunnudagskvöldið ruddust tvær kisur framhjá mér og fram á stigaganginn. Það kom mér ekkert á óvart hvað snertir Hrafnhildi ofurkisu, en litla systir hennar vildi skyndilega taka þátt í gamninu og fara út líka. Tárhildur hljóp niður stigana og sá þá til einnar nágrannakonunnar og flúði vælandiupp aftur og beint í fangið á mér sem ákvað að lofa henni að vera úti í smástund eftir að hafa vart þorað út fyrir hússins dyr allan veturinn.

Eftir að hafa sleppt henni lausri út í garð naut ég þess að vera ein og kattalaus heima um stund. Tveimur tímum síðar fór ég niður og kallaði í kisurnar. Ofurkisan kom strax að venju, en Tárhildur hafði hitt fyrir nokkra fressketti úti í garði og var á fullu að ögra þeim.

Klukkutíma síðar tókst mér loks að ná Tárhildi inn með því að draga athygli fresskattanna að harðfiski sem ég átti til. Nú er hún komin inn í rúm alsæl með að hún, minnsta kisan í hverfinu, hafði skorað þrjá verstu fressi hverfisins á hólm og komist heil heim frá þeim.


0 ummæli:Skrifa ummæli