mánudagur, mars 17, 2008

17. mars 2008 - SkírnEins og sumir vita sem þekkja mig, hefi ég aldrei neitað þeirri kristnidómsfræðslu sem ég hlaut í barnaskóla þótt vonir sumra þess efnis að ég færi í prestaskólann hefðu að engu orðið. Ofurtrú sumra fríkirkjusafnaða (að sjálfum fríkirkjusöfnuðinum frátöldum) hefur þó ekki verkað hvetjandi á mig að rækja kristindóminn.


Á pálmasunnudag var komin ástæða til að mæta til kirkju. Hvorki var tilefnið það að ferma, gifta eða jarða, heldur var kominn tími á skírn nýjasta erfðaprinsins. Eins og gefur að skilja dugðu ekki minna en tveir myndarlegir prestar í Neskirkju til að skíra drenginn inn í söfnuðinn (og Knattspyrnufélag Reykjavíkur heyrðist einhver tauta). Allt gekk ljómandi vel fyrir sig eftir skírn Starra og eftir altarisgöngu var haldið boð hjá móðurforeldrum hans þar sem etið var og drukkið (kaffi) í besta samlæti.

Takk fyrir mig


P.s. Einhver heyrðist kvarta yfir því af hverju Starri væri í hvítum skírnarkjól en ekki röndóttum.


0 ummæli:Skrifa ummæli