mánudagur, mars 03, 2008

3. mars 2008 - Svört glæsikerra

Ég ók á eftir svartri glæsikerru í dag, svo glæsilegri að fátæklingarnir á LandCruiser dauðskammast sín fyrir druslurnar sínar í samanburði. Þetta var Mercedes Benz 500 ML og svo nýr að hann var með númer af nýju gerðinni, þ.e. þrír bókstafir og tveir tölustafir.

Svona bíll er algjört tryllitæki af jeppa að vera og svo öflugur að það verður að anda mjög varlega á bensíngjöfina til að vagninn þeysist af stað frá núll í hundrað á örfáum sekúndum. Í svona vagni eru auðvitað allar fullkomnustu græjur, aksturtölva af fullkomnustu gerð, stereógræjur á við upptökustúdíó og leður af fíl.

Þar sem ég ók á eftir vagninum, dáðist að honum og dreymdi dagdrauma um að vinna stóra vinninginn í happdrætti svo ég gæti eignast svona bíl, veitti ég einu athygli. Stefnuljósin voru biluð. Á meðan ég ók á eftir honum ók hann þrisvar þannig að gefa átti stefnuljós og aldrei sáust nein.

Ég held að ég haldi mig frekar við vinstrigrænan Subaru í framtíðinni. Þar eru þó stefnuljósin í lagi.


0 ummæli:Skrifa ummæli