föstudagur, mars 21, 2008

21. mars 2008 - Um óskoðaða bíla

Í tilefni af frétt í fimmtudagsmogganum um reglugerðarbreytingu svo unnt verði að sekta þá sem ekki færa bíla sína til skoðunar fór ég að velta þessu máli fyrir mér, því eins og fréttin ber með sér, er um tíundi hver bíll á götunum óskoðaður.

Hverjir eru þeir sem ekki færa bíla sína til skoðunar á réttum tíma? Jú, það er fólkið sem gleymir að kíkja á bílnúmerið hjá sér og svo hitt fólkið sem á ekki peninga fyrir skoðun og viðgerð. Það er því bjarnargreiði fyrir báða þessa hópa að beita sektum, annarsvegar hópinn sem telur sig vera í góðri trú þar til sektarmiðinn birtist allt í einu inn um bréfalúguna og svo hinsvegar þann hóp sem mun eiga enn verr með að geta komið bílnum í gegnum skoðun sökum fátæktar. (Það þýðir ekkert að benda þessu fólki á að taka strætó því slíkt er vart á færi nema mestu hreystikvenna )
.
Það eru til aðrar aðferðir til að bæta ástandið. Ein er fólgin í auknu eftirliti með óskoðuðum bílum. Slíkt held ég að sé öllu betri en að beita sektarúrræðum. Önnur getur fólgist í að kannað sé ástand á skoðunarvottorði um leið og bílar eru stöðvaðir vegna umferðarlagabrota. Slíkt var oft gert í mínu ungdæmi og þótti sjálfsagt þótt óþarfi sé að senda bílinn í skyndiskoðun vegna þess að hann er óhreinn eða útaf engu.

Annars er einfaldasta ráðið fyrir fólk að fá sér vinstrigrænan eðalvagn sem rennur í gegnum skoðun ár eftir ár. Ef hann fær grænan miða er það bara til að miðinn verði í stíl við lit bílsins.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/03/20/eigendur_oskodadra_bila_thurfi_ad_borga/


0 ummæli:Skrifa ummæli