þriðjudagur, mars 04, 2008

4. mars 2008 - Ekki miða fyrir mig takk!

Þegar byrjað var að selja miða á tónleika Roger Waters sumarið 2006 keypti ég miða á netinu einungis átta mínútum eftir að byrjað var að selja miðana. Að sjálfsögðu keypti ég á fremra svæðinu og mætti tímanlega í Egilshöll, gekk meira að segja frá Grafarholti til að þurfa ekki að lenda í umferðaröngþveiti á leiðinni til baka.

Þegar inn var komið, minnti mannhafið mig mest á fjárrétt. Sumar kindurnar voru í fremri réttinni, aðrar í almenningnum fyrir aftan. Til hliðar við mannþvöguna og á upphækkuðum palli, afgirtum frá skrílnum í réttinni, voru nokkrir boðsgestir sem sátu við borð og fengu sérstaka afgreiðslu. Vafalaust hafa þeir notið tónleikanna til hins ítrasta.

Þar sem ég stóð í þvögunni var mér farið að líða svo illa í restina af tónleikunum að ég var farin að telja niður lögin uns tónleikunum lauk og gekk svo til baka í Grafarholtið þar sem ég geymdi bílinn. Ég ákvað að láta ekki bjóða mér upp á slíkan viðurgjörning aftur.

Nokkru síðar voru auglýstir tónleikar með Roger Waters með sama innihaldi í tveimur borgum Englands. Þar kostuðu miðarnir í betri sæti einungis 6500 krónur. Því miður fór ég ekki á þá tónleika til að fá að njóta þeirra á sama hátt og boðsgestirnir í Egilshöll.

Þrátt fyrir aðdáun mína á Eric Clapton fer ég heldur á tónleika með honum í alvöru tónleikahöll en að standa eins og rolla í rétt í Egilshöll.

http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/03/04/midar_a_clapton_ad_klarast/


0 ummæli:







Skrifa ummæli